Ég man ekki nógu langt aftur í tímann til að geta dæmt um hver sé versta ríkisstjórn Íslands – en þó kemur varla önnur til greina en hrunstjórnin svokallaða.
Hún missti beinlínis stjórnina á ríkinu – og allt hrundi í kringum hana, bankar, sparisjóðir, stórfyrirtæki, Seðlabankinn varð gjaldþrota, ríkið steyptist ofan í skuldapytt, sveitarfélög urðu stórskuldug, en gjaldmiðillinn rýrnaði um helming.
Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen árin 1980 til 1983 gæti vermt annað sætið. Þar voru með honum Alþýðubandalagsmenn og Framsókn – verðbólgan var hundrað prósent og heimilin í miklum vanda.
Aldrei hefur verið rifist jafn mikið og í stjórn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknar 1978 til 1979. En hún entist stutt.
Síðari ráðuneyti Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar koma líka til greina. Þarna var kominn furðulegur andi í stjórnarsamstarf sem byrjaði vel – bankar voru einkavæddir til vildarvina, það var sett á svið fyrir hrunið sem varð nokkrum árum síðar.
Fyrstu minni mín eru af Viðreisnarstjórninni, ég man að það var talað illa um hana, þá hafði hún setið tvö kjörtímabil. En það var merkileg og að mörgu leyti góð stjórn.
Ég man ekki lengra aftur – en ég hef talað við menn sem nánast tárfelldu af geðshræringu yfir því hversu Stjórn hinna vinnandi stétta, samstjórn Framsóknar og Alþýðuflokks, var góð. Hún sat árin 1934 til 1938. Þar voru ráðherrar mjög ungir, til dæmis var fjármálaráðherrann Eysteinn Jónsson aðeins 27 ára þegar hann settist í stjórnina.