Ég held það væri meira þjóðþrifaverk að sjá til þess að við fáum gott og stöðugt framboð af grænmeti og ávöxtum en að setja upp fleiri matvöruverslanir sem allar eru eins.
Það verður að segjast eins og er að grænmetið og ávextirnir í búðum á Íslandi er oft eins og svínafóður.
Sjálfur er ég mikill unnandi ávaxta.
Ég hef stundum velt fyrir mér hvernig stendur á því að á miðjum uppskerutíma ávaxta í nágrannalöndum okkar skuli ávextirnir sem fást hér vera komnir frá fjarlægum deildum jarðar – Argentínu, Chile, Suður-Afríku. Þessir ávextir eru afar geymsluþolnir, það vantar ekki, þeir hafa jú ferðast um hálfan hnöttinn, en bragðið af þeim er afar dauft.
Þess vegna varð ég mjög glaður þegar ég kom í verslun Frú Laugu við Laugalæk um helgina.
Þar voru til sölu tvær tegundir af nýjum eplum frá Englandi, og vínber frá Ítalíu. Allt var það sérlega ljúffengt, enda úr lífrænni ræktun. Það er oft talað um að ávextir og grænmeti sé hollara úr lífrænni ræktun, en það skiptir kannski ekki síður máli að bragðið er betra – enda kannski ekki von á öðru þegar hitt er framleitt í verksmiðjubúskap.
Epli í Frú Laugu. Önnur frábær búð sem má benda á er Bændur í bænum í Nethyl.