Ég hitti mann í gær sem sagði sögur af Stuðmannatónleikum í Hörpu.
Ein var af konu sem svaf áfengissvefni mestalla tónleikana, en rankaði svo við sér og ældi yfir heila tvo bekki – við lítinn fögnuð sessunauta hennar.
Dr. Gunni gerir þessu skil í pistli í dag – Harpa virðist hafa breyst í sveitaballahús þessa helgi.
En er það ekki allt í lagi – það má væntanlega þrífa gólf og bekki áður en við settlegir gestir á sinfóníutónleikum mætum næst?
Þar er er það versta sem tónleikagestir gera að hósta. Þeir sem hósta oftar en einu sinni fá illt auga frá öðrum tónleikagestum.
En það var fullt út að dyrum hjá Stuðmönnum og mikið stuð. Og svo vill líka til að Sinfónían fyllir Hörpu mörgum sinnum á vetri. Áður fyrr átti hún erfitt með að fylla helmingi minni sal í Háskólabíó.
Þetta ber fagurt vitni um tónlistaráhuga á Íslandi, en reyndar er það líka svo með Sinfónínuna að snobbgildi hennar virðist hafa aukist talsvert miðað við það sem var áður. Nú fer fólk til að sýna sig og sjá aðra á sinfóníutónleikum í Hörpu, en það datt engum í hug í Háskólabíói – snobbgildið þar var núll, enda var meðalaldur gesta afar hár. Nú hefur yngst mjög í hópnum.
Hinn glæsilegi Eldborgarsalur í Hörpu. Ljósmynd: Kristján Kristinsson.