Meðan ég hlusta með öðru eyranu á heldur daprar umræður forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum – þetta er keppni niðurávið, sá sem nær að beita ódýrari og innihaldslausari frösum lítur út eins og sigurvegari – er ég að lesa viðtal við hagfræðinginn og Nóbelsverðlaunahafann Joseph Stiglitz á vef Der Spiegel.
Stiglitz segir að bandaríski draumurinn sé orðinn að þjóðsögu. Hvorugur frambjóðandinn í forsetakosningunum tali um stærsta málið í Bandaríkjunum – hinn mikla ójöfnuð sem hefur farið mjög vaxandi síðustu áratugina.
Stiglitz nefnir dæmi: Sex erfingjar Walmart verslunarkeðjunnar ráða yfir auði sem er jafnmikill og eigur þeirra 30 prósenta sem eru á botninum í bandarísku samfélagi.
Staðreyndin er sú, segir Stiglitz, að hvergi í þróuðum löndum ræðst framtíð ungs fólks meira af efnahag og stétt foreldranna. Hreyfanleiki milli stétta er afar lítill í Bandaríkjum nútímans.
Innan við eitt prósent Bandaríkjamanna á um 35 prósent af þjóðarauðnum, þessi hópur borgar furðulega litla skatta, hann býr í bestu húsunum, fær bestu menntunina, hefur þægilegasta lífsstílinn – meðan fjöldinn á botninum er atvinnulaus eða getur rétt hangið á illa borguðum störfum sínum – atvinnuöryggið er sama og ekkert – og fjórðungur húseigenda hefur neikvæða eignastöðu, skuldar meira en virði húsnæðis síns.
Joseph Stiglitz var gestur í Silfri Egils fyrir fáum árum. Hann hefur nýskeð gefið út bókina The Price of Inequality: The Avoidable Causes and Invisible Costs of Inequality. Þar skoðar hann meðal annars hvernig markaðurinn virkar ekki eins og ætlast er til – hann er hvorki skilvirkur né stöðugur og hann skapar mikinn ójöfnuð sem stjórnmálin ráða ekki við.