Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, fjallar í leiðara um styrki til landbúnaðar á Íslandi. Þeir eru samkvæmt OECD helmingi hærri en tíðkast innan ríkja sem þar eiga aðild – styrkirnir eru um 47 prósent af tekjum bænda, en í Evrópusambandinu eru þeir að meðaltali um 20 prósent. Annað sem vekur athygli á Íslandi er að styrkirnir eru að miklu leyti framleiðslutengdir – Evrópusambandið hefur reynt að þróa styrkjakerfi sitt í átt frá því.
Kerfið er feikilega dýrt – og ekki hagkvæmt heldur.
Það eru hins vegar litlar líkur á að það breytist. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við 2007 hugsuðu margir að þarna væri komið tækifæri til að taka til í landbúnaðarkerfinu.
Eins og allir vita fór tími ríkisstjórnarinnar í annað.
Nú er staðan þannig að varla neitt ríkisstjórnarmunstur er í kortunum sem mun hagga við þessu kerfi. Það hefur heldur ekki verið til umræðu um langa hríð, nema þá í tengslum við ESB-aðild. Forysta Bændasamtakanna er algjörlega á móti ESB, og hún hefur eignast bandamenn, sem eru kannski allir ekki ýkja hrifnir af háum landbúnaðarstyrkjum, en telja að best sé að hafa bændaforingjana með sér í liði.