Líkt og áður er komið fram verður einn helsti stjórnmálamaður Bretlands, David Miliband, verður gestur í Silfri Egils á sunnudag.
Miliband var utanríkisráðherra á árunum 2007 til 2010. Hann og bróðir hans Ed tókust á um formennsku í Verkamannaflokknum í september 2010 og tapaði David naumlega.
Flokksþing Verkamannaflokksins hefst einmitt í Manchester á sunnudag. Flokkurinn hefur talsvert forskot á Íhaldsflokkinn í skoðanakönnunum.
Í viðtalinu ræði ég við Miliband um stjórnmál í Evrópu og Bretlandi, niðurskurð og kreppu, en einnig ber á góma íslensk málefni, leið Íslands út úr kreppunni, Icesave og möguleg innnganga Íslands í ESB.
Í þættinum verður einnig rætt um þjóðaratkvæðagreiðsluna um tillögur Stjórnlagaráðs sem fer fram eftir 21 dag – það er ekki lengra þangað til.
Einnig verður spáð í framboðsmálin – brotthvarfi Jóhönnu Sigurðardóttur, væntanlegum formannsslag hjá Samfylkingu – hver komi þar helst til greina – átökum innan Framsóknarflokksins og hvert sá flokkur stefni – og baráttu um sæti hjá Sjálfstæðisflokknum, ekki síst í Reykjavík.