Í síðasta Silfri ræddum við um snjóhengjuna svokölluðu, allt fjármagnið sem leitar héðan út – og tilvist hafta til að afstýra því.
Eitt af því sem var nefnt var að hvaða leyti væri rétt að nota þetta fé til fjárfestinga innanlands – og þá hvaða fjárfestingakostir væru í boði.
Lilja Mósesdóttir var þátttakandi í umræðunum – hún dregur álitaefnin vel saman í stuttri færslu á Facebook síðu sinni:
„Við erum stórveldi í raforkuframleiðslu í heiminum og framleiðlum meiri raforku á mann en nokkur önnur þjóð. Ég óttast að náttúruverndar- og umhverfissjónarmið megi sín lítils andspænis 1200 milljarða snjóhengju sem ætlunin er að koma í innlenda fjárfestingu og leyfa síðan að leka smám saman út úr hagkerfinu. Stjórnvöld skortir hugrekki til að skrifa niður þessar froðueignir.
Enginn friður verður um virkjanakosti í biðflokki þegar kröfuhafar hafa fengið sinn hlut úr þrotabúum gömlum bönkunum. Skortur verður á fjárfestingarkostum fyrir eigendur snjóhengjunnar. Ef milljarðarnir verða settir í nýja virkjanakosti, þá erum við á leið í aðra eignabólu sem mun enda í verðbólguskoti með hörmulegum afleiðingum fyrir heimilin.“