Mjög áhugaverður sérfræðingur um Kína verður gestur í Silfri Egils á sunnudag. Hann nefnist Juan Pablo Cardenal, er blaðamaður frá Spáni og hefur lengi starfað í Peking, Shanghai og Hong Kong.
Cardenal er ómyrkur í máli um áform Kínverja – hann telur að þeir séu reknir áfram af mikilli þörf eftir orku og auðlindum, það sé í raun ekki fjarri að tala um heimsyfirráðastefnu í því sambandi.
Cardenal er ásamt Heriberto Araujo höfundur bókar um Kína sem nefnist La silenciosa conquista China, eða Hinir þöglu landvinningar Kínverja.
Sú bók einblínir á Afríku, Asíu og Suður-Ameríku, en nú eru þeir að vinna að bók sem fjallar um umsvif Kínverja í Bandaríkjunum og Evrópu.
Hér er merkileg röð ljósmynda sem þeir Cardenal og Araujo hafa tekið af umsvifum Kínverja víða um heim undir heitinu China International.
Af öðrum gestum í þættinum má nefna Hörð Torfason, en fáir vita að Hörður hefur verið á stanslausum ferðalögum síðan í Búsáhaldabyltingunni – hvað er það sem fólk vill heyra frá Íslandi, hvaðan kemur þessi áhugi, og hvers hefur Hörður orðið vísari á ferðum sínum?
Við ræðum einnig um gjaldmiðilsmál með Illuga Gunnarssyni, Lilju Mósesdóttur og Árna Pál Árnason og tökum stöðu á Icesave réttarhöldunum með Eiríki Svavarssyni úr InDefence hópnum.