Það kennir margra grasa í skýrslu Seðlabankans um gjaldeyris- og gengismál.
Hér verður til dæmis ekki annað séð en að sé sett fram sú skoðun að bankarnir hafi stundað ólöglega lánastarfsemi:
„Íslensku bankarnir gengu fyrir ætternisstapa þar sem þeir höfðu byggt upp gífurlega lausafjáráhættu í erlendum gjaldmiðlum sem raungerðist í fjármálakreppunni. Vandi þeirra var hins vegar meira en lausafjárvandi enda eigið fé þeirra væntanlega undir lögbundnum eiginfjárhlutföllum undir lokin þegar leiðrétt er fyrir lánveitingum þeirra til að fjármagna hlutafjáreign í þeim sjálfum.“
Hér er fjallað um verðtryggingu og hvernig hún hálfpartinn geldir peningastefnuna:
„Þótt verðtrygging fjárskuldbindinga sé langt frá því að vera séríslenskt fyrirbæri, er jafn útbreidd notkun verðtryggingar eins og hér á landi sjaldgæf. Þessi mikla notkun verðtryggingar getur haft áhrif á það hvernig áhrif peningastefnunnar miðlast út í efnahagskerfið í gegnum vaxtafarveginn og hugsanlegt er að svo umfangsmikil verðtrygging hafi dregið úr áhrifamætti peningastefnunnar…“
„Það sem líklega dregur enn frekar úr áhrifamætti peningastefnunnar er sú staðreynd að stór hluti þessara langtíma verðtryggðu lána er á jafngreiðsluformi en í því tilviki er greiðslubyrði vegna hárra vaxta við lántöku dreift yfir mjög langt lánstímabil í stað þess að lántakendur þurfi að taka á sig tiltölulega þunga greiðslubyrði framan af.“
Og hér er fjallað um hrikalega efnahagsstefnu á árunum fyrir hrun:
„Það er því eðlilegt að spurt sé hvort peningastefnan, og innlend hagstjórn almennt, hafi verið nægilega góð. Þótt það sé og verði umdeilt benda niðurstöður kaflans til þess að peningastefnan hafi brugðist of seint og of veikt við mögnun ójafnvægis í þjóðarbúskapnum…Að lokum virðist ljóst að samspili peningastefnunnar við stefnuna í ríkisfjármálum hafi verið stórlega ábótavant og að stefnan í ríkisfjármálum hafi fremur stuðlað að því að auka á ójafnvægið í þjóðarbúskapnum en að draga úr því þar sem saman fór mikill vöxtur útgjalda, illa tímasettar skattalækkanir, mikil fjárfesting sem opinberir aðilar ákváðu og grundvallarbreyting á innlendu húsnæðislánakerfi.“
Og hér í fáum orðum dregið saman það kom fyrir lántakendur í hruninu:
„Ólíkt því sem gerðist á Írlandi, varð mikil gengislækkun á Íslandi í aðdraganda fjármálakreppunnar sem jók enn frekar á vanda skuldsetts einkageira vegna víðtækrar lántöku í erlendum gjaldmiðlum. Verðbólga jókst einnig verulega á Íslandi í kjölfar gengislækkunarinnar, sem minnkaði kaupmátt og jók á skuldsetningu vegna víðtækrar verðtryggingar fjárskuldbindinga.“