Ólöf Nordal gerir það sem er fátítt í íslenskum stjórnmálum, hún hættir af sjálfsdáðum – lætur ekki bera sig út þegar allir eru búnir að fá gjörsamlega nóg af henni.
Það er í sjálfu sér lofsvert. Stjórnmálaframi á Íslandi er ekki upphaf eða endir alls, eins og sumir virðast halda. Það eru alltof margir stjórnmálamenn sem virðast ekki hafa hugmyndaflug til að ímynda sér að það sé hægt að gera ýmislegt annað í lífinu.
Maður sér ekki betur en að nú eigi leiðin að vera greið fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Það er að komast hefð á að kona gegni varaformannsembættinu, hin harðsnúna Hanna er á leið í landsmálin. Hún tapaði fyrir Bjarna Benediktssyni í formannsslag á síðasta landsfundi, en samt nýtur hún talsverðrar hylli innan flokksins – auk þess að höfða talsvert út fyrir raðir hans.
Hanna Birna gæti náð skjótum frama í landsmálunum, vermt fyrsta sæti flokksins í Reykjavík í þingkosningunum í vor, orðið varaformaður og ráðherraefni.