Það virðist allt stefna í að umræðan fyrir næstu kosningar verði á mjög þjóðernislegum nótum. Flokkar munu keppast um yfirboð í þjóðernislegum anda. Sumir í stjórnarandstöðunni munu leggja allt kapp á að beina talinu að ESB, en sumir í stjórnarliðinu vilja fyrir alla muni forðast það – þeir vilja frekar tala um að Ísland sé fyrirmynd annarra þjóða í að komast út úr kreppu.
Meðan stjórnmálin eru svo þjóðernisleg fjarlægjast þau miðjuna – þar sem sagt er að kosningar ráðist. Nánast enginn stjórnmálaflokkur staðsetur sig nú þar, nema Björt framtíð. Henni verður hins vegar ekki sérlega vel ágengt – hverju sem um er að kenna.
Íslendingar eru náttúrlega furðulegir, þeir hafa ekkert traust á stjórnmálum, það mælist í kringum tíu prósent, en samt ætla þeir unnvörpum að kjósa gömlu flokkana í næstu kosningum.
Ein tilgátan gæti svo verið sú að miðjan sé horfin í íslenskum stjórnmálum, að hún hafi gufað upp í umróti síðustu ára. Ef ekki, þá er hún furðulega þögul.