Ég var á ferð í Ísafjarðardjúpi um daginn og get alveg staðfest þessa frétt Bæjarins besta, það er nóg af berjum þar handa allri þjóðinni.
Framtaksamt fólk þyrfti reyndar að tína og koma þessu í búðir – það er misjafnt hvað maður kemst oft og mikið í berjamó.
Það er átakanlegt í miðri berjavertíðinni að sjá ekki íslensk ber í búðum – víðast eru sömu amerísku bláberin og alltaf, rándýrar, pínulitlar öskjur.
Til eru undantekningar á þessu, Vínberið á Laugavegi selur til dæmis bæði íslensk bláber og krækiber.
Annars er margt skrítið í þessum bransa. Ég skil til dæmis ekki að að síðsumars, þegar er uppskerutími epla í Norður-Evrópu, skuli eplin sem fást í búðum á Íslandi vera komin frá Argentínu.
Bláber í Ísafjarðardjúpi, myndin er tekin fyrr í þessum mánuði.