Það er ótrúlegt að sjá hvernig Miðbærinn í Reykjavík iðar af lífi sem aldrei fyrr.
Þetta er ekki sama borgin og sá frekar dapri staður sem ég ólst upp í .
Ferðamannastraumurinn er náttúrlega ótrúlega mikill, en það er líka fullt af Íslendingum í bænum, léttklæddum, frjálslegum og brosandi í góða veðrinu. Hvarvetna setja kaffihús og veitingastaðir út borð. Þegar ég var ungur var þetta beinlínis bannað.
En það eru ekki allir glaðir.
Á þessum tíma er hópur kaupmanna á Laugaveginum í fýlu og hefur ráðið mikinn fýlupoka til að vera talsmann sinn.
Það er kannski ekki tilviljun að fýld vefsíða sem þeir halda úti sé öll í svörtu – eins og einhver hafi barasta dáið – en sýnin sem þarna birtist er furðuleg.
Gatan iðar af lífi og skemmtilegheitum, en þeir sjá ekkert nema myrkur.
Framtíðin er auðvitað sú að stórum hluta Laugavegs verði breytt í göngugötu, að minnsta kosti allt sumarið. Lokun hans er sérlega vel heppnuð nú annað árið í röð – og engin ástæða til annars en að framhald verði á. Fólk þekkir það líka frá ferðalögum erlendis að miðborgargötur af þessu tagi eru yfirleitt lokaðar fyrir bílaumferð.