Gamli sósíalistinn Ólafur Ragnar Grímsson er mikið fyrir hátignarlæti.
Það hefur aldrei verið upplýst hvers vegna honum mislíkaði svo við Carol Van Voorst, sem eitt sinn var sendiherra Bandaríkjanna, að henni var tilkynnt að hún fengi ekki orðu þegar hún var á leið til Bessastaða að taka við henni.
Það hafa verið sögusagnir um að Ólafur hafi verið móðgaður vegna þess að eiginkona hans fékk ekki lengur fylgd leyniþjónustumanna í Bandaríkjunum. Erlendir þjóðhöfðingjar fá mikla vernd á ferðalögum þar í landi – Bandaríkjamenn eru jú öryggisóðir – en í sparnaðarskyni var ákveðið að vernd fyrir maka minniháttar þjóðhöfðingja yrði skorin niður.
Það þótti mikið stöðutákn fyrir maka, oftast eiginkonur, að geta mætt á fínustu veitingahúsin með alvöru öryggisverði.
Þetta er saga sem ekki hefur verið staðfest – en Ólafur vill helst ekki gefa eftir neitt af tildrinu í kringum embættið. Hann kemur með flóknar – en afar léttvægar – útlistanir á því hvers vegna þetta þurfi að vera svona. Valdflutningur fer fram með handabandi, segir Ólafur, en getur hann ekki eins farið fram með bréfleiðis, með tölvupósti – eða þess vegna með smsi? Er þetta vald (hins afar valdalitla íslenska forseta) svo merkilegt að einungis sé hægt að færa það milli manna með snertingu?
Maður getur ímyndað sér fátt vitlausara en að forsetar Hæstaréttar og Alþingis séu að þvælast suður í Keflavík í hvert skipti sem forsetinn fer úr landi. Hann mun eyða um það bil fjórðungi árs erlendis núorðið. Þetta er á tíma internets og hraðra samgangna. Kristján Eldjárn og Ásgeir Ásgeirsson máttu teljast góðir ef þeir fóru einu sinni á ári til útlanda.
Halldór Baldursson gerir þessu frábær skil í Fréttablaði dagsins: