Iceland er verslunarkeðja í Bretlandi sem selur gaddfreðinn ruslmat. Í nútímasamfélagi eru margir að flýta sér, þannig að það er pláss fyrir svona búðir. Ég kom eitt sinn inn í svona búð og þá rifjaðist upp fyrir mér konan, leikin af Þóru Friðriksdóttur, sem fær taugaáfall í frystideild matvöruverslunar í kvikmyndinni Á hjara veraldar.
Eigandi búðanna nú heitir Malcolm Walker og hann er að hjálpa Baugsfeðgum við að koma aftur undir sig fótunum.
Hann mætir upp á hið raunverulega Iceland og fer að tala um að þeir feðgarnir hafi verið beittir ofsóknum. Þeir hafa reyndar lengi látið þannig feðgarnir – allt frá tíma Davíðs Oddssonar.
Orð Walkers þessa eru makalaus í ljósi milljarðanna á milljarðana ofan sem töpuðust á Baugi, Íslandsbanka, FL-Group, Stoðum, Högum, Gaumi, Byr, 1998 – og hvað þetta allt hét. Og svo þeirrar velvildar sem Jón Ásgeir, einn stærsti skuldari Íslandssögunnar, þó nýtur að geta hugleitt einhvers konar kombakk – fyrir utan að eiga helsta fjölmiðlaveldi á Íslandi.