fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Eyjarlíf

Egill Helgason
Þriðjudaginn 17. júlí 2012 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á Eyjunni var baráttan fyrir lífinu hörð. Til marks um það eru grjótgarðar sem eru um alla eyjuna, merki um stallaræktun, þar sem var reynt að nýta hvern skika. Garðarnir hafa verið hlaðnir upp í aldanna rás – dagsverkin hafa verið ótrúlega mörg og erfið. Það er lítill jarðvegur hér og vatn er af skornum skammti. Regnvatni var safnað saman á vetrum, neðarlega í fjallshlíðum eru brunnar þangað sem vatnið er ennþá sótt á ösnum.

Geitur- og sauðfé var aðal bústofninn, en einnig sóttu eyjarskeggjar björg í hafið bláa sem umlykur eyjuna.

Helsta ógnin fyrir utan skortinn voru sjóræningjar. Vegna sjórána eru þorp á eyjum eins og þessari byggð efst á tindum. Þá er tími til að flýja ef sést til sjóræningja – og eins er passað upp á að hafa þorpin dálítið eins og völundarhús. Stundum komu sjóræningjar og rændu næstum öllu fólkinu, seldu það í ánauð til landa í suðri og austri.

Stundum komu sterkir menn og tóku völdin. Feneyingar voru lengi hér á Eyjunum – og síðar Tyrkir. Sterku mennirnir byggðu virki eða litla kastala – elsta hverfið í bænum hér heitir Kastro eða Kastalinn. Þeir veittu vissa vörn gegn sjóránum, en á móti kröfðust þeir skatta og þrengdu að frelsi fólksins.

Hér sáust ekki peningar fyrr en í upphafi tuttugustu aldar. Þá tóku nokkrir eyjaskeggjar sig til og fóru til Alexandríu – grísku borgarinnar í Egyptalandi – þar fengu þeir sér launavinnu. Þeir sendu peninga heim.

Eyjan þótti svo afskekkt að hún var notuð sem nýlenda fyrir pólitíska fanga. Það er gamalþekkt að eyjar í Miðjarðarhafi væru notaðar í slíkum tilgangi – Rómverjar sendu fólk sem lenti í ónáð út á eyjar. Pólitísku fangarnir á Folegandros voru margir kommúnistar. Þeir voru látir leggja götur og vegi og hlaða ennþá fleiri grjótgarða. Sums staðar á götum má sjá krot sem þeir hafa rispað í steininn.

Íbúar eyjarinnar eru gestrisnir og glaðlyndir. Þeir þóttu koma vel fram við útlagana sem undu hag sínum nokkuð vel. Til dæmis var læknir hér á eyjunni fram til 1967, vinsæll og virtur, hann  kom sem útlagi á árum Metaxa-stjórnarinnar fyrir stríð og settist að.

Í stríðinu var hér slæðingur af Ítölum og svo einn til tveir Þjóðverjar. Eyjan var ekki talin hernaðarlega mikilvæg. Mér er sögð sú saga af áræðanlegum heimildamanni að lok stríðsins hafi verið jöfnuð met. Einn eyjaskeggi hafði gerst sekur um of mikið samstarf við hernámsliðið. Þegar stríðinu lauk gekk maður upp að honum í þorpinu og hjó hann með exi í hausinn. Líkið var látið hverfa, það var ekki talað um þetta mér. Mér er sagt að maðurinn sem framdi verkið hafi búið í þorpinu þangað til fyrir fáum árum en þá dó hann.

Rafmagnið kom ekki hingað fyrr en 1980. Og vatnsskorturinn var alltaf vandamál. Fólkið hafði ekki rennandi vatn í húsum sínum. Það gat farið í almenningsböð á morgnana milli tíu og eitt. Sturturnar voru kaldar. Það voru varla neinir bílar, bara asnar og múlasnar – fólk þurfti að tipla á milli taðhraukanna. Skip komu ekki nema á margra daga fresti, það gátu liðið tvær vikur milli ferða. Fyrstu ferðamennirnir fóru í raun ekki að koma fyrr en á níunda áratugnum og nú koma skip á hverjum degi.

Gata í Kastrohverfinu á Folegandros.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?