Skýringarnar á úrslitum forsetakosninga eru nokkuð þverstæðukenndar. Því er haldið fram að það sé sigur Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna að Ólafur Ragnar skyldi sigra. Hér í þessari grein er meira að segja sagt að Ólafur Ragnar hafi náð að trompa Davíð Oddsson sem einhvers konar yfirsjalli.
Kosning gamla formanns Alþýðubandalagsins er þá orðin ósigur vinstrisins, sigur hægrisins.
Samt var því haldið fram fyrir kosningarnar að margir Sjálfstæðismenn ætluðu að kjósa Þóru Arnórsdóttur – það voru ýmsir úr flokknum sem lýstu stuðningi við hana.
Ég man heldur ekki til þess að neinn sérstakur Sjálfstæðisflokknum lýsti yfir stuðningi við Ólaf Ragnar – og það gerði Morgunblaðið heldur ekki. Forysta Sjálfstæðisflokksins hélt einfaldlega að sér höndum í kosningunum.
Enda duga þessar skýringar ekki. Sigur Ólafs Ragnars er nátengdur þjóðaratkvæðagreiðslunum tveimur um Icesave. Stjórnarliðar hafa viljað trúa því að Icesave hafi verið einhvers konar bragð Sjálfstæðisflokksins – en í raun er þetta einhver sterkasta almenna pólitíska hreyfing sem hefur risið á Íslandi. Stór hluti þessarar hreyfingar hefur býsna róttækar skoðanir – hann er á móti því að almenningur gangi í ábyrgð fyrir banka og hann er andsnúinn fjármálakerfinu sem hefur alltof mikil völd í veröldinni.
Svona er þetta, alveg burtséð frá því hver hefur „rétt“ eða „rangt“ fyrir sér um Icesave.
Þeir sem kusu á móti Icesave voru ekki ekki allir hægri menn – það er svo óralangt frá því.
Bloggarinn Ragnar Þór Pétursson skrifaði nokkuð skarpa greiningu á þessu í morgun:
„Ætli það væri ekki best fyrir óvini ÓRG að slappa núna af og einbeita sér að raunverulega verkefninu. Sem er að koma í veg fyrir að kosningahjól sögunnar rúlli til baka í þá stöðu sem var. Eins og staðan er núna er Sjálfstæðisflokkurinn að fara að taka við stjórnartaumunum í þessu landi – m.a. vegna þess að vinstri öflin eru búin að vera að rífast innbyrðis og slást við róttæku öflin um forsetaembættið. Þegar menn þurfa að taka höndum saman kunna menn ekki við það – enda sundurlyndið búið að ná nýjum hæðum.“
Og ennfremur:
„Margir óvinir ÓRG og stuðningsmenn stjórnvalda halda að falli EFTA-dómur gegn Íslandi í Icesave muni það sanna málstað þeirra með einhverjum hætti og endurvekja traust.
Það er algjör óskhyggja.
Það er sama hvernig sá dómur fer það mun alltaf leiða í ljós fáránlegt flækjustig þessa máls. Það lúrir nefnilega ýmislegt undir yfirborði þess sem kemur stjórnvöldum alls ekki vel.
Sigur fyrir dómi mun endanlega jarða vinstri flokkana. Tap mun koma Sjöllum jafn vel. Þeir studdu síðasta samninginn.
Vinstri menn á landinu sitja í dag uppi með tapað spil.
Og næstum genetísk þrætuþörf kemur í veg fyrir að þeir sjái það.
Að öllum líkindum mun það leiða til þess að sömu öfl komast hér til valda og keyrðu landið í kaf.“