Það er nokkuð brött ályktun að sigur Ólafs Ragnars Grímssonar í kosningunum í gær sé sérstakur ósigur ríkisstjórnarinnar.
Það var að vísu viss hópur innan Samfylkingarinnar sem hvatti ákafast til framboðs Þóru Arnórsdóttur, en að öðru leyti héldu stjórnarliðar sig hæga í kosningunum og raunar stjórnarandstaðan líka.
Þetta er fyrst og fremst sigur Ólafs Ragnars – hann hefur alla tíð spilað sóló í stjórnmálum, líka þegar hann var formaður Alþýðubandalagsins, og það er út í hött að álíta að hann sé nú orðinn sérstakur Framsóknar- eða Sjálfstæðismaður – eða „óskakandídat Sjálfstæðismanna“.
Það verður meira að segja að teljast líklegt að Ólafur Ragnar mun á næstu misserum tala mikið um efnahagsbatann á Íslandi og þar verður hann samstíga stjórninni – hann hefur reyndar gert talsvert af því nú þegar.
Önnur ályktun sem er brött er að Ólafur muni verða umdeildari á næsta kjörtímabili en hann hefur verið.
Er það? Það er varla hægt að verða umdeildari en Ólafur Ragnar hefur verið síðustu fjögur árin – og miðað við það má fimmtíu og þriggja prósenta fylgi teljast harla gott.
Það gæti auðvitað byrjað einhver ófriður í kringum embættið ef kosið verður um aðild að Evrópusambandinu. En sú kosning virðist vera langt undan – og eins og stendur er það mikil minnihlutaskoðun að Ísland skuli ganga í ESB.