Ég held að Guðni Th. Jóhannesson hafi rangt fyrir sér þegar hann segir að línur í Icesavemálinu hafi alltaf mótast af því hvort menn eru í stjórn og stjórnarandstöðu. Þetta var ekki einu sinni svo í þrengsta flokkspólitískum skilningi, innan Vinstri grænna var mjög virk andstaða gegn Icesave sem fór langleiðina með því að kljúfa flokkinn.
Samfylkingin hélt betur saman í málinu, en innan flokksins var þó fólk eins og Össur Skarphéðinsson, Árni Páll Árnason, Kristrún Heimisdóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem höfðu miklar efasemdir um málatilbúnaðinn.
Úti í samfélaginu var andstaðan svo grasrótarleg og þverpólitísk. Því má ekki gleyma með hversu miklum yfirburðum Icesave samningarnir voru felldir. Ríkisstjórnin missti mikið af stuðningsmönnum vegna Icesave og hefur ekki endurheimt þá enn.
Innan þrengsta kjarna ríkisstjórnarinnar hneigðust menn til að lita svo á – og gera sumir enn – að Icesave hafi verið einhvers konar brella hjá Sjálfstæðisflokknum. Það lýsir mjög veikum skilningi á atburðunum og eðli hreyfingarinnar gegn Icesave.