Í Vesturheimi hitti ég mann af íslenskum ættum, fæddan í Kanada, bónda og skáld. Hefði ég átt að stinga upp á forseta fyrir Ísland þá hefði þessi maður orðið fyrir valinu. Hann er leiðtogi í sínu byggðarlagi vegna innri styrks, visku og rósemi.
En það er nánast eins og forsetakosningarnar séu að hverfa. Maður verður ekki var við að neinn sé að tala um þær nema þeir sem eru mjög ákafir í einhverju liðinu. Það virðist vera mun meiri áhugi á Evrópukeppninni í fótbolta.
Umræðan snýst um hluti eins og hvers vegna Herdís vilji ekki vera á forsíðu Grapevine, af hverju Ólafur Ragnar hafi ekki mætt á ráðstefnu um Nató, en stuðningsmenn Þóru Arnórsdóttur eru að efna til „Þórudags“ um „allt land“ með boltaleikjum, ljóðalestri og hlaupum.