Evran riðar til falls – fjármagn sogast ekki bara burt frá Grikklandi heldur leitar það líka frá löndum eins og Spáni, Portúgal og Ítalíu í öruggara skjól í Norður-Evrópu.
Ástandið er að verða þannig að hvert land er farið að hugsa meira um hagsmuni sína en Evrópu, þetta gæti snúist upp í einhvers konar viðskiptastríð þar sem, eins og Kristrún Heimisdóttir orðar það á Facebook:
„Hvert ríki ver sjálft sig og samskiptin hrynja vegna fjármagnsflutninga heim úr útibúum, óskýrra marka á bankaeftirliti milli ríkja og óvissu um innistæðutryggingar?“
Það má litlu muna að verði bankaáhlaup í löndunum við Miðjarðarhafið, að fólk þeysi út og reyni að ná peningunum sínum út úr bönkum. Við þetta gætu bankar fallið unnvörpum, og ólíklegt er að sparifjáreigendur fái peningana sína.
Hvorki löndin né Evrópa sem slík hafa innistæðutryggingakerfi sem ræður við þetta, kerfið er ekki hannað til að ráða við hrun margra banka.
En á sama tíma er Evrópusambandið aðili að dómsmáli gegn Íslandi vegna bankahruns og innistæðutrygginga…