Það var athyglisvert að sjá hvaða leið Þóra Arnórsdóttir fór við opnun kosningamiðstöðvar sinnar í gær. Skoðanir hennar á forsetaembættinu hafa verið mjög á reiki, en þarna tók hún mjög íhaldssama afstöðu – hún stillti sér beinlínis upp við hlið Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnbogadóttur.
Um leið segir hún að Ólafur Ragnar Grímsson sé ógn við stjórnskipunina í landinu, það eru býsna þung orð.
Í raun er þarna gefinn tónninn fyrir kosningarnar, Þóra vill forseta sem lætur flokkana um stjórnmálin – það verður að líta svo á að hún muni tæplega beita málskotsréttinum – en Ólafur Ragnar beitir sér fyrir virku og nokkuð pólitísku forsetavaldi.
Þóra stillir sér upp með þinginu – og á þá kannski von um stuðning innst úr herbúðum stjórnmálaflokkana – en Ólafur stillir sér upp á móti því.