Sorgaratburður varð á Seyðisfirði um helgina. Krá bæjarins, Frú Lára, brann til kaldra kola.
Þetta hefur verið staður þar sem bæjarbúar og ferðamenn hittast, ekki síst á sumrin þegar mikill fjöldi fólks á leið um Seyðisfjörð. Húsið er rúmlega hundrað ára gamalt og úr timbri – á Seyðisfirði er einhver fallegasta timburhúsabyggð á Íslandi.
Eigandi Frú Láru er Eyþór Þórisson. Hann er þekktur maður, mikill höfðingi og sérlega skemmtilegur. Eyþór er á áttræðisaldri – hann bjargaðist út úr húsinu þegar það brann. Eyþór er reyndar föðurbróðir Sigurveigar konu minnar – og maður er óneitanlega dapur yfir þessum tíðindum. Nú er jafnvel talað um að safna fé til að byggja Láru upp á nýtt.
Eyþór er einstakur maður og ævisaga hans kom út fyrir nokkrum árum, skráð af Tryggva Harðarsyni.