Ólafur Ragnar Grímsson byrjar kosningabaráttu sína með nokkuð afgerandi hætti, það vekur reyndar athygli að það kýs hann að gera á fjölmiðli sem er í eigu gamals stuðningsmanns hans, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, en hann notaði líka tækifærið til að bauna á aðra fjölmiðla.
Það er greinilegt að Ólafur veit að hann þarf að berjast fyrir því að halda forsetaembættinu – og framsetning hans er nokkuð klókindaleg, en hún gæti líka klikkað.
Hann lætur í veðri vaka að framboð Þóru Arnórsdóttur sé runnið undan rifjum Samfylkingarinnar, að stefna hennar í utanríkismálum sé ekki traustverðug. Þannig setur Ólafur Ragnar Þóru í flokk með Evrópusambandssinnum.
Ólafur fer hins vegar ekki dult með það að hann sjálfur er andsnúinn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fjölmiðlar virðast ekki kveikja á því, en það er algjör nýung í íslenskum stjórnmálum að forseti sé svo afdráttarlaus í utanríkismálum. Kristján Eldjárn og Vigdís voru bæði á móti her í landi áður en þau urðu forsetar, en þau steinþögðu um það þegar þau voru komin í framboð.
Þóra hefur ekkert gefið upp um Evrópusambandið, en það er vitað að hún starfaði áður fyrr með Evrópusinnum. Spurningum um Evrópusambandsaðildina hefur hún svarað með þeim hætti að það sé ekki hennar að ákveða, forseti geri ekki annað en að gæta þess að farið sé eftir leikreglum lýðræðisins þegar ákvörðun er tekin.
Ólafur segir einnig að kvótamál henti í þjóðaratkvæðagreiðslu – hann er beinlínis að gefa ádrátt á að hann myndi senda frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnun til þjóðarinnar. Þetta þýðir eiginlega að nú er kominn tími til að spyrja forsetaframbjóðendur um öll helstu ágreiningsmál: Rammaáætlun, skuldir heimilanna, stjórnarskrána. Ef við eigum að kjósa forseta sem beitir málskotsrétti ótt og títt þurfum við að vita um afstöðuna til mála – annars verður þetta bara geðþótti.
Það er spurning hvort þessi gambítur Ólafs dugar – en það er merkilegt að sjá að eftir sextán ár í embætti slær hann algjörlega nýjan tón í baráttu fyrir forsetaembættinu. Hingað til hefur beinlinis verið ætlast til þess að þeir væru skoðanalausir – eða skoðanalitlir – um helstu ágreiningsmál, en Ólafur ætlar að rífa baráttuna úr því fari, reyna að fylkja andstæðingum Evrópusambandsins á bak við sig meðan hann lætur líta út að Þóru sé ekki treystandi – hún sé einungis strengjabrúða Jóhönnu Sigurðardóttur.
Þetta er djarft spilað – og það er svosem alveg möguleiki að þetta virki alveg öfugt og Þóra græði á því hvernig hann hjólar í hana. Ólafur er búinn að hasla völl og ætlar að berjast þar – það gæti verið best fyrir Þóru að koma alls ekki þangað.