Baráttan um fiskveiðistjórnunarkerfið er farin að taka á sig merkilegar myndir. Það er ljóst að í gangi er mikil áróðursherferð gegn breytingum og miklu til kostað í fjölmiðlaauglýsingum. Málin eru gjarnan sett í farveg sem hefur dugað vel – borg gegn landsbyggð. Og svo er líka talað eins og verið sé að ræna sjómenn lífsviðurværinu.
Það er svo spurning hvernig þetta er að virka – jú, líklega er herferðin að hafa talsvert mikil áhrif á almenningsálitið. Það er þó til í dæminu í svona herferð að menn gangi of langt – að þeir gangi of langt í að útmála sig sem fórnarlömb. Enginn þarf að velkjast í vafa að á síðustu árum hefur orðið mikil tilfærsla fjármuna til útgerðarinnar.
Eitt er þó sem kemur lítt fram í allri þessari umræðu, nefnilega að þeir sem vilja miklar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu eru hundóánægðir líka og finnst frumvarp Steingríms J. vera bastarður. Þessar raddir heyrast varla í öllum glymjandanum.