Það er líkt og margir hafi gefið sér að almenningur væri áhugalaus um breytingar á stjórnarskránni, hann væri kannski bara að hugsa um skuldirnar sínar.
Þessa hefur ekki bara gætt í röðum þeirra sem eru andsnúnir breytingum á stjórnarskránni, heldur líka hinna – þeir hafa ekki lagt í að leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs nema þá að hafa þær með forsetakosningum – til að öruggt væri að fólk skilaði sér á kjörstað.
Ný skoðanakönnun MMR, sem hefur farið fremur lágt, sýnir þó annað. Þar birtist mikið fylgi við breytingar á stjórnarskránni.
Þarna kom fram að 66 prósent vildu að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá, en einnig var spurt um einstaka þætti stjórnarskrárinnar.
Þar voru niðurstöðurnar býsna afgerandi:
86% vilja að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign.
44,6% vilja halda óbreyttu ákvæði um þjóðkirkju (meirihlutinn vill þá væntanlega breytingu).
84,2% aðhyllast í auknum mæli persónukjör í alþingiskosningum.
77,4% vilja jafnt atkvæðavægi í alþingiskosningum.
86,9% vilja að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál.