Niðurstöður Gallups í skoðanakönnun um evruna eru sláandi. Mikill meirihluti þjóðarinnar er búinn að gefast upp á krónunni. Viðtal Viðskiptablaðsins við Sigurð Einarsson kemur líka á merkilegum tímapunkti – daginn eftir að Davíð Oddsson gaf umræðu um evruna þá einkunn að hún sé sprenghlægileg.
Umræðan getur hins vegar orðið villandi. Það er alveg rétt hjá framkvæmdastjóra ASÍ sem sagði í fréttum í dag að það sé ekki patentlausn að taka upp evruna undireins. Hann ætti reyndar að vita að það er varla neinn að tala um það.
Fyrst þarf auðvitað að koma á nokkrum stöðugleika í hagkerfinu – og síðan þarf að íhuga hvaða krónugengi er heppilegt að skiptin fari fram. Þetta mun alls ekki leysa allan vanda í hagkerfinu. En umræða um að hægt sé að taka upp evruna án þess að ganga í ESB mun færast í vöxt – ég veit að merkileg grein um þetta er væntanleg í næsta hefti Þjóðmála – en um leið munu þær raddir hækka að best sé að ganga bara í Evrópusambandið. Aðalmálið er auðvitað á þegar landið er opið upp á gátt á tíma alþjóðavæðingar er erfitt að nota einhvern minnsta gjaldmiðil í heimi.
Þetta er mál sem er aldeilis komið á dagskrá, hvað sem Davíð og Geir segja.