Þegar ég var í MR – en þar gerði ég ekki sérlega langan stans á síðari hluta áttunda áratugarins – voru tvö Morrison félög. Annað var Jim Morrison félagið sem var mjög fjölmennt. Hitt var Van Morrison félagið. Þar var ég einn meðlimur. Svo fór hægt og bítandi að fjölga í Morrison félaginu mínu. Nýjir meðlimir tóku að tínast inn í það og þeir eru enn að koma, þótt ekki sé haldið vandlega utan um félagatalið.
Ég hef ekki heyrt neitt af hinu Morrison félaginu lengi; ég get heldur ekki hugsað mér miðaldra mann sem sækir einhverja visku í The Doors – það er tónlist fyrir táninga til að droppa út við, ljóð full af gelgjulegum umbrotum. Hins vegar hef ég sjálfur reynt það að vera miðaldra, glaður og dapur, og finna samhljóm í lögum Vans.
Þessi Norður-Íri frá Belfast hefur löngum verið einn af leiðtogum lífs míns. Í gær fór ég á tónleika með honum, líklega í sjötta skiptið á ævinni. Nú spilaði hann fyrir troðfullu húsi í Royal Albert Hall. Lék sjálfur á saxófón, munnhörpu, gítar og tók aðeins í píanóið. Með honum var hljómsveit skipuð tólf hljóðfæraleikurum og söngvurum. Kjarninn í gamla Morrison félaginu var mættur.
Maður sem hefur samið jafn mörg lög og Morrison á varla í miklum erfiðleikum að setja saman prógram fyrir tónleika. Ég hlustaði á hann í Glastonbury í sumar – núna spilaði hann mestanpart allt önnur lög.
Hápunktur kvöldsins fannst mér vera þegar hann söng Dylanópusinn It´s All Over Now Baby Blue. Útgáfu sína af laginu gerði Morrison vinsæla sirka 1966. Ég get ekki ímyndað mér að hann hafi leikið það oft á tónleikum síðan. En þetta var frábært.
Í kvöld ætla ég svo að fara á tónleika með Brian Wilson í Royal Festival Hall. Ég er ekki beint að eltast við það nýjasta í músíkinni.