Það var frægt á Íslandi að Halldór Laxness gisti alltaf á Hótel Angleterre við Kóngsins Nýjatorg. Íslendingar sem komu til Kaupmannahafnar mændu upp í glugga hótelsins í lotningu af því þeir vissu að nóbelskáldið hafði sofið þar.
Fyrir nokkrum árum gisti ég þrjár nætur á Angleterre. Í anddyri hótelsins hangir uppi tafla með nöfnum frægs fólks sem hefur gist á hótelinu. Mér fannst þetta hálf plebbalegt. Þarna voru einhverjir þjóðhöfðingjar en líka fólk í ætt við Liberace, Barböru Streisand og Michael Jackson. Svoleiðis týpur.
En nafn Halldórs Laxness var hvergi að sjá. Samt er hann frægasti gestur hótelsins í huga okkar Íslendinga.
Nú þegar Íslendingar hafa eignast Angleterre verður örugglega úr þessu bætt.