Einkenni trúmanna er það viðhorf að heimurinn stefni í rétta átt. Að hann hafi eitthvert lokatakmark. Að ef við breytum rétt bíði okkar ástand þar sem ríkir friður og hamingja á jörðinni. Þeir sem ekki trúa eru hræddir um að það verði alltaf sami glundroðinn – það kunni að verða efnislegar framfarir, en í raun breytist mannskepnan ekki neitt.
Á tuttugustu öld, öld mestu framfara í mannkynssögunni, voru háð ógeðslegustu stríð frá upphafi vega. Mörg voru þau í nafni stjórnmálakenninga sem sumir segja að séu líka afbrigði af trú. Kommúnistar trúðu því að heimurinn myndi endurfæðast þegar verkalýðsstéttin hefði náð völdum. Í þúsundáraríki nasismans átti að ríkja kynþáttaleg eindrægni.
Frjálshyggjumenn trúa því að markmið sögunnar sé að skapa frjálsan markað út um allan heim – þá muni styrjöldum og ófriði linna. Fukuyama kallaði þetta „endalok sögunnar“.
Kristnir menn trúa að endurlausnin verði þegar Messías snýr aftur. Þjóðkirkjumenn eru reyndar svo linir að þeir trúa þessu eiginlega ekki lengur – finnst allt í lagi að halda bara í horfinu. Þess vegna eru þeir frekar viðkunnanlegir. Þeir eru lausir við ofstæki.
Í hópum trúleysingja mikið af áköfu fólki sem trúir því að þegar heimurinn verður laus við trú verði allt gott. Þá muni ríkja friður og hamingja á jörðinni. Í huga þeirra hefur heimurinn þetta takmark – að losna við hindurvitni. Þá verðum við öll frjáls og góð.
Í nýrri bók sinni Black Mass segir heimspekingurinn John Gray að þetta sé í raun afbrigði af kristinni trú – að þarna sé á ferðinni þúsaldarhyggja eins og í trúarbrögðunum. Gray gerist nokkuð stríðinn í bókinni og heldur því fram að Richard Dawkins, æðstiprestur trúleysingja, sé í rauninni laumu trúmaður.
Eins og búast má við hefur bókin vakið reiði og hneykslun í söfnuðum vantrúarsinna.