Ég var að taka til í bókaskápnum hjá mér og rakst á lítinn bækling, útgefinn af Verkalýðsforlaginu 1976. Yfirskrift hans er:
Hvað vill KFÍ/ML – stofnþing Kommúnistaflokks Íslands m-l.
Bæklingurinn er gefinn út í tengslum við stofun ofannefnds stjórnmálaflokks. Þá hafði ekki starfað eiginlegur kommúnistaflokkur á Íslandi síðan 1938. Þetta var á þeim árum að störfuðu ýmsar hreyfingar á vinstri vængnum – sumar æði torkennilegar – en af lestri bæklingsins má ráða að meðlimir kommúnistaflokksins nýja þjáðust ekki af minnimáttarkennd.
Til upprifjunar og skemmtunar ætla ég að grípa aðeins niður í bæklinginn – mest af handahófi. Það sem er einna athyglisverðast við þetta er að það er skrifað af dauðans alvöru.
Hér er engum hlátur í hug.
Í stofnþingssamþykkt, grein II, um alþjóðlegt ástand, segir:
„Kínverski Kommúnistaflokkurinn og Flokkur vinnunnar í Albaníu hafa haldið fána byltingarinnar á lofti og í óhvikulli baráttu gegn nútíma endurskoðunarstefnunni, viðhaldið og þróað það starf sem unnið var í Sovétríkjunum á dögum Leníns og Stalíns.“
Það fór heldur ekki á milli mála hvert skyldi leitað að fyrirmyndum:
„KFÍ/ML byggir starf sitt og stefnu á marxisma-lenínisma kenningum Maó Tse-tungs. Það er stefna KFÍ/ML að sameina innan sinna vébanda alla marxista-lenínista á Íslandi og berjast gegn endurskoðunarstefnu, trotskisma og öðrum borgaralegum stefnum sem fjandsamlegar eru hagsmunum verkalýðs og vinnandi alþýðu…“
Og:
„KFÍ/ML gengur inn í hina marxísku-lenínísku heimshreyfingu undir forystu kínverskra og albanskra kommúnistaflokksins….“
Frá stofnþingi flokksins voru sendar kveðjur, meðal annars til Verkamannaflokks Kóreu:
„Íslenskir marxistar-lenínistar hafa alltaf dáðst að og stutt hina hetjulegu baráttu kóreanskar alþýðu undir giftusamlegri forystu kóreanska Verkamannaflokksins og félaga Kim Il Sung… Þessi barátta er mikið fordæmi fyrir íslenska marxista-lenínista í byltingarsinnuðu starfi þeirra.“
Og til Albaníu:
„Íslenskir marxistar-lenínistar hafa ætíð haft hlýjar og bróðurlegar tilfinningar til hins mikla Flokks Vinnunnar í Albaníu og hins mikla leiðtoga hans, Envers Hoxa.“
Til Kína:
„Íslenskir marxistar-lenínistar hafa ætíð stutt og fylgt hinum mikla Kommúnistaflokki Kína undir forystu Maós formanns.“
Í svona kommúnistaflokki mátti ekki vera neitt borgaralegt snobb, í ályktun um alþýðumenningu sagði að listamenn skyldu:
„…bera hag verkalýðsins og hinnar vinnandi alþýðu fyrir brjósti, að sýna alþýðunni fullkomna samstöðu, að vera tilbúnir að læra af henni, reynslu hennar og skynsemi, í stað þess að búa til verk sem eru verkalýðnum framandi og torskiljanleg og koma engan veginn til móts við þarfir hans. Til þess þurfa listamenn okkar að kosta kapps um að losa sig við smáborgaralegar hugmyndir um æðri stöðu lista og listamanna í þjóðfélaginu“
Félagarnir í Kommúnistaflokknum þurftu:
„…að vera færir um að taka gagnrýni og ábendingum frá sérhverjum félaga og fjöldanum utan flokksins. Jafnframt verða þeir að vera á varðbergi gagnvart undirróðursmönnum, skemmdarverkamönnum og metorðastriturum innan sem utan flokksins, afhjúpa þá og koma í veg fyrir að slíkir menn hreiðri um sig í leiðandi einingum hans.“
Óvinir verkalýðsins leyndust víða, ekki síst í Alþýðubandalaginu:
„Í allri þessari baráttu mætir KFÍ/ML nútíma endurskoðunarstefnu Alþýðubandalagsins og hvers kyns endurskoðunarstefnu. Nútíma endurskoðunarssinnar og endurbótasinnar eru erindrekar borgarastéttarinnar í herbúðum verkalýðs og beinir stéttaróvinir hans.“
Ekki var sambandið heldur gott við Einingarsamtök kommúnista – marxistana/lenínistana sem þá lutu forystu Ara Trausta Guðmundssonar sem þá var svona íslenskur Lenín:
„Í baráttunni fyrir flokksstofnun tók miðstjórn KSML þá ákvörðun í september 1975 að stefna að sameiginlegri flokksstofnun með EIK (m-l) og öðrum íslenskum marxistum-lenínistum. Þessari málaleitan miðstjórnar KSML var þá hafnað af EIK(m-l) og í umræðunum sem fylgdu hafa EIK (m-l) ekki sýnt heiðarlega framkomu eða heilindi, heldur þvert á móti þráskallast við í sundrungarstarfi sínu og beitt rógi og baktjaldamakki óspart gagnvart KSML. Velji EIK (m-l) að halda sundrungarstarfsemi sinni áfram, munu þau óhjákvæmilega einangrast og veslast upp sem lítill og máttvana gagnrýnihópur. Velji EIK (m-l) að berjast gegn KFÍ/ML hlýtur flokkurinn óhjákvæmilega að líta á þau og meðhöndla sem fjandmenn flokksins og verkalýðsstéttarinnar.“
Nokkru áður hafði svonefnd GS-klíka innan flokksins verið afhjúpuð og rekin vegna „undirróðursstarfsemi og „vinstri“ endurskoðunarstefnu“. Ekki var heldur gott að eiga við Fylkinguna sem var:
„…sundurlaus hópur endurskoðunarskinna – anarkista, trotskista, marcusista og allra handa smáborgaralegra strauma – hún stóð á grundvelli endurskoðunarstefnunnar, tók ranga afstöðu til forystuhlutverks verkalýðsstéttarinnar og alræðis öreiganna, ranga afstöðu til fræðikenningar marxismans-lenínismans og hliðraði sér frá því að taka afstöðu til deilnanna innan heimshreyfingar kommúnismans.“
Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika voru kommúnistar að ná til alþýðunnar:
„Nú tengdust félagar samtakanna verkafólki utan KSML, störfuðu með því og drógu það til starfs fyrir hagsmuni verkalýðsins og uppbyggingu flokksins. Straumsvíkurverkamaðurinn, sem áður hafði verið gefinn út af sellunni í Straumsvík, var nú gerður að málgagni verkafólksins í verksmiðjunni og safnað í kringum hann baráttufúsustu verkamönnunum.“
Sigurinn var í raun nærri:
„KFÍ/Ml mun sameina verkalýðsstéttina undir forystu sinni og leiða hana fram til sósíalískrar valdabyltingar í bandalagi við smábændur og aðra vinnandi alþýðu, og afnema þannig auðvaldsþjóðfélagið og reisa alræði öreiganna.“
Væri nú ekki gaman ef höfundar þessa texta gæfu sig fram? Þetta er reyndar skrifað á ágætri íslensku, burtséð frá klisjunum.