Þessi glæsilegi nornabúningur með tilheyrandi höfuðdjásni var til sölu í einni nýaldarbúðinni í aðalgötunni í Glastonbury. Ég bauðst til að gefa konuni minni hann.
Af mörgu forvitnilegu sem þarna er á boðstólum má líka nefna þetta námskeið sem fjallar um hvernig skal umgangast álfa. Dagur með álfum nefnist það einfaldlega og þar er meðal annars kennt hvernig maður getur boðið álfum heim til sín og hvernig maður getur unnið með álfum til að hjálpa næstu sjö kynslóðum.
Á öllum kaffihúsum í Glastonbury er rætt um andleg málefni. Við fórum á stað sem selur jurtafæði – náttúrlega. Á næsta borði var maður að tala um dulræna eiginleika tölunnar ellefu, af öðru borði heyrði ég orðið „zodiac“, en allt í kring voru litlar búðir sem selja steina með dulræna eiginleika og bjóða upp á námskeið í heilun, reiki, shamanisma og nepalskri íhugun.
Allt fjarska áhugavert. Í alvörunni.