Við fórum til Glastonbury á tónleika. Ekki samt á aðal Glastonbury hátíðina, hún er í júní með tilheyrandi rigningu, leðju og unglingafjöld.
Nei, þetta er miklu penni hátíð sem haldin er í garðinum í kringum gamla klaustrið í Glastonbury. Fólk kemur með mat, drykki og luktir sem lýsa upp garðinn þegar kvöldar.
Á föstudagskvöldið hélt Van Morrison ótrúlega góða tónleika – það var nánast helgistund þegar hann spilaði Into the Mystic. Í hljómsveitinni voru meðal annars fiðluleikari og kvenmaður sem spilaði á stálgítar. Þau spiluðu sérlega flotta útgáfu af gamla New Orleans laginu St. James Infirmary.
Karlinn var greinilega í góðu skapi – uppklappslögin voru mestu hittarar hans, Brown Eyed Girl og Gloria.
Daginn eftir lék Royal Philharmonic Orchestra tónlist eftir Tsjækovskí undir stjórn Charles Hazelwood. Þar sló gjörsamlega í gegn ungur rússneskur fiðluleikari, Alexander Sitkoveskí. Hann átti stórleik í fiðlukonsert Tsjækovskís.
Síðast var leikið verkið 1812 með tilheyrandi pomsarapomsi. Flugeldum var skotið upp þar sem fallbyssurnar koma inn í lokin.
Það var sól og blíða allan tímann. Þetta var frábært. Glastonbury er skrítinn lítill bær, fullur af gömlum hippum og nýaldarbúðum. Hvergi Starbuck´s eða McDonald´s að sjá.
Ég sit hins vegar á Starbuck´s í bænum Bath og skrifa þessa færslu. Alþjóðlega kaffihúsakeðjan má eiga það að nettengingin er í lagi hjá þeim. Ætla að labba á eftir og skoða rómversku böðin og hið fræga Royal Crescent.
* Myndina tók ég á nýju myndavélina mína. Þetta er fyrsta myndavél sem ég eignast síðan ég var tíu ára. Myndavélar hafa breyst aðeins síðan þá.