Þegar stjórnin í Bretlandi fann ekki neitt til að einkavæða lengur var farið að einkavæða samgöngukerfið. Afleiðingarnar hafa mestanpart verið hörmulegar. Lestarleiðir voru boðnar út og eru nú starfræktar af einkafyrirtækjum. Fyrir vikið búa Bretar við verstu og dýrustu lestarsamgöngur í Norður-Evrópu. Víða eru lestir með eindæmum sóðalegar og óhrjálegar.
Þetta er oft borið saman við Frakkland sem hefur bestu og flottustu lestir í heimi – í ríkiseigu. Maður þeytist milli landshorna í glæsilegum hraðlestum á hóflegu verði, í kerfi sem allir skilja.
Lestakerfið í Bretlandi er nefnilega líka óskiljanlegt.
— — —
Nú um daginn fór á hausinn batterí sem heitir Metronet. Það réð einfaldlega ekki við verkefni sitt sem var að sjá um viðhald á stórum hluta neðanjarðalestakerfisins í London. Það var sjálfur Gordon Brown sem þrýsti á um að endurnýjun neðanjarðarlestanna skyldi framkvæmd með þessum hætti. Nú sitja stjórnvöld uppi með reikninginn – sem er auðvitað miklu hærri en ef ríkið og borgin hefðu stjórnað verkefninu frá upphafi.
Fyrir utan óþægindi notendanna sem mega bíða ár og síð eftir því að samgöngukerfið batni.
— — —
Svo eru það flugvellirnir. Þeir voru einkavæddir og settir í hendurnar á fyrirtæki sem heitir BAA. Það er alþekkt hversu vond lífsreynsla það er að fara um flugvelli í Bretlandi. Þeir eru niðurníddir, þjónustan er fyrir neðan allar hellur, biðraðir hvergi lengri. Hryðjuverkahættu hefur verið kennt um þetta, en í sumar hafa böndin í auknum mæli verið að berast að BAA sem græðir stórfé á rekstri flugvallanna.
Ýmislegt bendir til að biðraðirnar séu ekki síst fjárhagslegu aðhaldi þessa fyrirtækis að kenna. Það tímir einfaldlega ekki að fjölga öryggishliðum og starfsfólki til að manna þau.
Vegna þess að fyrirtækið situr eitt að starfseminni hefur það engan hvata til að bæta þjónustuna. Eins og í tilviki lestanna er þetta nefnilega einokun sem hefur verið einkavædd.
Notendur flugvalla eru seinir til að kvarta – kannski vegna hryðjuverkaógnarinnar sem er búið að mikla fyrir okkur, kannski vegna þess að flestum finnst ferðamátinn hvort sem er óþægilegur. Flugfarþegar eru almennt frekar bældir og kúgaðir.
En nú virðast menn loks vera að átta sig á að þetta gangi ekki lengur. Það er þó hægar sagt en gert taka flugvellina frá fyrirtæki sem hefur samning upp á að reka þá. Líklega mun BAA halda Heathrow sem er drjúg tekjulind fyrir fyrirtækið – en um leið einn leiðinlegasti flugvöllur í heimi. Hugsanlegt er hins vegar að næst stærsta flugvellinum, Gatwick, verði komið í hendurnar á öðru einkafyrirtæki sem þá væri ætlað að veita BAA samkeppni. Það er svo spurning hvort það hefur einhver áhrif.
Aðalatriðið er þó auðvitað að þessi einkavæðing var algjört flopp frá upphafi. En það er erfitt að snúa hjólinu við.