Maður er farinn að heyra vangaveltur um hver sé arftaki Steingríms J. í Vinstri grænum. Steingrímur er sá í hópi flokksformannanna sem hefur setið lengst. Staða hans hefur veikst mjög eftir að honum mistókst að komast í ríkisstjórn eftir kosningarnar í vor. Margir telja að hann sitji ekki út þetta kjörtímabil.
Nafnið sem er oftast nefnt er Svandís Svavarsdóttir. Hún þykir traust, kemur vel fyrir, hæfilega móðurleg – snjöll stjórnmálakona. Það skemmir reyndar aðeins fyrir að hún situr ekki á þingi og er ekki mjög í sviðsljósi fjölmiðlanna – það er jú ekkert sérlega spennandi hlutskipti að vera í minnihluta í borgarstjórn.
Hins vegar er styrkur fyrir hana að svavaristar – gamlir fylgismenn föður hennar, Svavars Gestssonar – hafa styrkt tök sín í flokknum. Álfheiður Ingadóttir og Árni Þór Sigurðsson eru sest á þing – og svo er Svavar náttúrlega einn helsti ráðgjafi Steingríms.
Í augum þessa fólks eru afkomendur Svavars nánast eins og hið helga gral.
Ögmundur þykir síður koma til greina – það er heldur ekkii víst að Steingrímur geti fellt sig við að hann verði formaður. Katrín Jakobsdóttir er of reynslulítil – Guðfríður Lilja líka og hún komst heldur ekki inn á þing í vor. Getur reyndar engum öðrum kennt um en flokkssystkinum sínum sem settu hana í vonlaust sæti.
Vinstri grænir vilja verða forystuflokkur í stjórnandstöðu. Þeirra bíður það verkefni að glíma við ríkisstjórn sem hefur yfirgnæfandi þingmeirihluta og er vinsæl meðal þjóðarinnar – hefur 83 prósenta fylgi samkvæmt nýrri skoðanakönnun!
Til að þetta gangi þarf flokkurinn að víkka skírskotun sína meðal kjósenda – hætta upphlaupum og sjálfvirkri óánægju en reyna að virka ábyrgari. Öðruvísi getur stjórnarandstaðan ekki orðið valkostur – þannig eru dagar frelsisins að vissu leyti búnir hjá VG.