Ég held að það sé tómt mál að tala um að auka aðgengi að áfengi eða lækka það í verði eins og ástandið er í skemmtanalífinu um helgar.
Vínmenning er ekki til á Íslandi og verður aldrei. Við getum látið okkur dreyma um vínsötrandi Miðjarðarhafsbúa. Hjá þeim er þetta lífsnautn – hjá okkur þunglyndislegt próblem. Ástandið í bænum um síðustu helgi virðist hafa verið hryllingur.
Nær væri að lögreglan tæki sig saman í andlitinu og reyndi að útrýma ofbeldinu úr bænum. Kannski þarf hún að fá fleiri liðsmenn til þess – kannski þarf hún að hafa einhver tæki sem ofbeldismönnum stendur ógn af?
Það er ekki nóg að lögreglumennirnir hími bara óttaslegnir inni í bílum.
Liður í þessu gæti verið að stytta opnunartíma veitingastaða. Það voru greinilega mistök að lengja hann. Margir kýla í sig eiturlyfjum til að þrauka nóttina – og verða snarklikkaðir. Verstar eru líkamsárásirnar síðla nætur. Það þarf að fá fólkið til að fara fyrr út á kvöldin – og fyrr heim til sín.
Ég veit ekki til að það tíðkist nokkurs staðar að miðbær í höfuðborg sé undirlagður af drukknu og dópuðu fólki heilu næturnar og fram undir hádegi á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Yfir þessu er einkennilegur subbubragur.
Það er líka ljóst að mjög misráðið var að banna reykingar á öldurhúsum. Fólk fer út að reykja í æstu skapi, gjarnan með glös eða flöskur í hendi, það svífur enn á það þegar út kemur – þá er stutt í að átök brjótist út.
Í alvörunni. Það þarf að gera eitthvað í þessu. Ástandið er algjörlega til vansa. Og alveg út í hött að tala um að lækka verðið á áfengi eða selja bjór eða vín í matvörubúðum.
Er ekki kominn tími til að borgarstjórnin í Reykjavík fari á stúfana? Eða hvar er sjálfsvirðingin?