Kári er búinn að sjá nýju Mr. Bean myndina í þremur löndum. Fyrst á Íslandi með mér, svo í London með mér og mömmu sinni og í gær í útibíói á Naxos með afa sínum og ömmu.
Ég held honum finnist myndin alltaf jafn skemmtileg. Sérstaklega atriðið þar sem Mr. Bean syngur óperuaríuna O mio babbino caro.
Um daginn las ég dóm um myndina í íslensku blaði. Þar spurði ungur maður af hverju svona myndir væru gerðar og af hverju fólk færi að sjá þær?
Svarið við því er einfalt. Þetta eru myndir sem öll fjölskyldan getur horft á saman. Flestar barnamyndir nútímans eru þannig að það er lífsins ómögulegt fyrir fullorðið fólk að þrauka í gegnum þær. Aðrar barnamyndir eru svo ljótar að maður vill helst ekki að börnin sjái þær. Á undan myndinni í gær var sýnt sýnishorn úr vinsælli sjóræningjamynd sem er gerð fyrir börn – eða það held ég. Þetta var svo ljótt að amma hans sagði mér að Kári hefði haldið fyrir augun allan tímann.
Mr. Bean er notalega sakleysislegur. Gamanið er algjörlega græskulaust. Það er ekki of mikill hávaði eða fyrirgangur í myndunum um hann, þetta líður þægilega áfram. Að sumu leyti eru þær í anda gömlu þöglu myndanna – látbragðið er í fyrirrúmi, Mr. Bean kann eiginlega ekki að tala.
Þetta skiljum við sem eigum börn, en líklega ekki kvikmyndagagnrýnendur sem hökkuðu í sig Mr. Bean. Þeir eru líka flestir ógiftir og barnlausir.
Ég þekki það. Einu sinni var ég ógiftur og barnlaus kvikmyndagagnrýnandi. Þá var ég meinhorn og skrifaði alls kyns vitleysu sem mér fannst sniðug.