Þorsteinn Pálsson skrifar ágætan leiðara um Reykjavíkurflugvöll – eiginlega það fyrsta af viti sem maður hefur séð um það mál í langan tíma. Þorsteinn veltir því fyrir sér hvort flugvöllurinn sé í auknum mæli að verða millilandaflugvöllur. Flug á einkaþotum um völlinn fer vaxandi (ferðamáti sem ber ekki að hvetja til) og einnig hefur verið óskað eftir aðstöðu fyrir millilandaflug með farþega.
Samgönguráðherrann sem er æstur flugvallarsinni virðist vera þess fýsandi að starfsemin verði þróuð í þessa átt. Það er svo þversögn að á sama tíma er í gangi seinni hluti hugmyndasamkeppni um Vatnsmýrina. Togstreitan um völlinn heldur áfram þrátt fyrir tilraunir til að koma á sáttum.
Þorsteinn skrifar:
„Aukið þotuflug er á hinn bóginn líklegt til þess að herða til muna andstöðu við veru vallarins á þessum stað af umhverfisástæðum. Að því mun aukheldur reka, ef að líkum lætur, að fjármálaráðherra komist einn góðan veðurdag að þeirri niðurstöðu að fjármunum skattborgaranna sé ekki vel varið með því að reka tvo alþjóðaflugvelli með fjörutíu kílómetra millibili.
Engin dæmi eru um slíkt þjónustustig með öðrum þjóðum miðað við jafnan farþegafjölda. Í fljótu bragði verður ekki séð að Keflavíkurflugvöllur, sem nú er í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, verði fluttur nær miðju þess. Þessar einföldu staðreyndir er nauðsynlegt að hafa í huga við stefnumótun um þróun flugvallarstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu öllu og skipulagi þess frá Skipaskaga að Garðskaga.
Ætla má að af sjálfu leiði að byggð muni á næstu áratugum þróast milli Straumsvíkur og jaðarsins á Miðnesheiði. Það er náttúra samgöngumiðstöðva að draga til sín atvinnustarfsemi og byggð. Skipulag næstu áratuga á þessu svæði öllu ætti þar af leiðandi að taka mið af þessu.
Hafnfirðingar hafa nýlega ákveðið í allsherjaratkvæðagreiðslu að Straumsvík verði ekki framtíðarvettvangur fyrir álver. Á sama tíma eru áform eða bollaleggingar um að reisa álver á tveimur öðrum stöðum á fyrirsjáanlegu byggðaþróunarsvæði milli kjarna höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar.
Sú spurning hlýtur að vakna hvort það er skynsamleg ráðstöfun horft frá almennum skipulagssjónarmiðum. Er ekki full ástæða til þess að móta heildstæða stefnu um þróun flugvallarstarfsemi og byggðar á þessu svæði öllu? Geta skipulagsyfirvöld landsins látið kylfu ráða kasti hvernig þessi mál skipast á næstu áratugum?
Eins og sakir standa virðist sú stefna ríkjandi að láta þrýsting hverju sinni ráða viðbrögðum og aðgerðum bæði varðandi flugstarfsemi og álver. Betra ráð væri hins vegar að samhæfa áform samgönguyfirvalda, skipulagsyfirvalda og þeirra sveitarfélaga sem hér eiga hlut að máli. Alltént mætti ljá slíku verklagi nokkra hugsun.“
Borgin getur auðvitað ekki án þessa svæðis verið ef á að vera heil hugsun í skipulagsmálum hér – ef hún á að geta orðið umhverfisvæn og hagkvæm. Nema við teljum okkur geta rekið hér einkabílasamfélag með tilheyrandi kostnaði, mengun og úthverfavæðingu langt fram á öldina.
Er kannski kominn tími til að fara að huga að lestarsamgöngum á svæðinu?