Ég sé að heima er deilt um orð Olli Rehn um að innganga Íslands í Evrópusambandið væri lítið mál. Ég sé ekki betur en að þetta sé alveg rétt hjá manninum. Skoðum þetta aðeins:
Ísland er velferðarríki að norrænni fyrirmynd með blönduðu hagkerfi. Við höfum fylgt Vestur-Evrópuríkjum að málum allar götur síðan lýðveldið var stofnað. Það er ekkert í samfélagsgerðinni sem tefur inngöngu, ekki heldur neinar syndir sem þarf að gera upp.
Við þyrftum að koma á stöðugleika í hagkerfinu. Við myndum taka upp evruna að því ferli loknu. Það verður léttir að losna við krónuna.
Vegna hefðarréttar bendir fátt til þess að við þyrftum að hleypa evrópskum flotum inn í landhelgina til fiskveiða. Þess ber að geta að íslensk skip eru nú þegar að veiðum um víða veröld.
Röksemdin að hér sé önnur hagsveifla en í ESB er dauð.
Ekkert bendir til að ESB breytist í evrópskt ofurríki. Til þess eru aðildarríkin of mörg og ólík.
Við myndum ekki taka upp evrópskt atvinnuleysi. Innan ESB eru nú 27 ríki, æði misjöfn. Lönd eins og Finnland, Írland og Lúxemburg standa afar vel. Í Þýskalandi er mikill uppgangur sem og víða í Evrópu.
Með EES samningnum erum við komin langleiðina inn í ESB.
Innganga væri sennilega góð fyrir landbúnaðinn íslenska og hinar dreifðu byggðir sem standa höllum fæti.
Þau rök að ESB sé skriffinskubákn standast ekki alveg. Þvert á móti hefur sambandið frekar fáa starfsmenn miðað við umfang.
Eftir brottför Bandaríkjahers hafa tengslin okkar vesturyfir haf veikst til muna. Við eigum ekki mikla samleið með Bandaríkjunum lengur.
Evrópusambandið byggir meðal annars á þeirri hugmynd að félagsleg velferð skipti máli. Íslendingar aðhyllast upp til hópa þetta viðhorf. ESB er mótvægi við bandaríska módelið og hinn grimma kapítalisma sem tíðkast í Suðaustur-Asíu.
Því má ekki gleyma að ESB er í aðra röndina friðarbandalag sem hefur notað aukin viðskiptatengsl til að tryggja frið í Evrópu í áratugi. Það er mjög merkilegt hvernig sambandið hefur boðið ríki Austur-Evrópu velkomin undanfarin ár. Spurning hvort við eigum að standa utan þessa?
Sagan hefur sýnt að að svona alþjóðasamningar hafa ævinlega verið Íslendingum til góðs – samanber inngönguna í NATO, EFTA og EES.
Ef Ísland færi inn í ESB ættum við að styðja aðild Tyrklands.
Það er engin ástæða til að ætla að þetta yrðu flóknar samningaviðræður – að minnsta kosti ekki miðað við inngöngu þjóða eins og Póllands, Rúmeníu og Kýpur.