fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Eyjan

Ný viðreisn

Egill Helgason
Fimmtudaginn 17. maí 2007 16:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framsóknarflokkurinn reyndist of lemstraður til að Geir tæki áhættuna að hafa hann áfram í ríkisstjórn. Framsóknarmenn voru búnir að komast að þeirri niðurstöðu að þeir vildu halda áfram, en þá sagði Geir hingað og ekki lengra. Hann sá að Framsókn myndi ekki þola neina ágjöf í stjórnarsamstarfi. Naumur meirihluti með Árna Johnsen hefði ekki hjálpað. Líklega hefur Geir séð það fyrir allt frá því að kosningaúrslitin lágu fyrir að ekki kæmi til greina að starfa með Framsóknarflokki. Hann hefur hins vegar lagt sig fram um að niðurlægja ekki maddömuna – hún á ekki annað skilið eftir tólf ár í ríkisstjórn en að Sjálfstæðisflokkurinn komi skikkanlega fram við hana.

Geir og Ingibjörg Sólrún ætla að hittast í dag. Það er sagt að þeim ætti að reynast hægðarleikur að mynda ríkisstjórn. Það er þó ekki alveg víst. Maður gengur út frá því að þetta verði stjórn sem byggir á jöfnum skiptum, flokkarnir fái jafn mörg ráðuneyti og að stjórnarsáttmálinn verði nokkuð jöfn málamiðlun.

En hvað fær Samfylkingin fyrir sinn snúð? Báðir flokkarnir geta örugglega sæst á að byggja öldrunarheimili og stytta biðlista. En hvað með ESB? Margumtalaðan lista vígfúsra þjóða? Álver – verður niðurstaðan að haldið verður áfram uppbyggingu í Helguvík? En hvað þá með Húsavík? Og hvað með skattakerfið – kjör hinna lægst launuðu? Svo myndi maður líka vilja vel útfærðar breytingar á heilbrigðiskerfinu og landbúnaðinum frá svona stjórn.

— — —

Samfylkingin þarf líka að huga að því hún var stofnuð til að vera andstæðingur Sjálfstæðisflokksins. Það er möguleiki að kjósendur yfirgefi hana unnvörpum ef hún starfar með Sjálfstæðisflokki – að Vinstri grænir hirði stærstan hluta af vinstra fylginu. En á hitt má líka benda að tónninn í pólitíkinni hér er nokkuð annar en um langt árabil. Heiftin er minni – andúð fólks sem telur sig vera á vinstri vængnum á Sjálfstæðisflokknum er ekki næstum jafn mikil og tíma kalda stríðsins eða á veldisskeiði Davíðs.

Innan Sjálfstæðisflokksins er sjálfsagt einhver andstaða við þetta stjórnarmynstur. Kannski fyrst og fremst hjá Davíð, Birni Bjarnasyni og hinni gömlu framvarðasveit. Það byggist á miklu leyti á persónulegri andúð á Ingibjörgu Sólrúnu. Því hefur verið slegið fram að flokkurinn megi ekki starfa með Samfylkingu því þá sé hann að bjarga pólitísku lífi Sólrúnar. Ég hef fjallað lengi um íslenska pólitík og get fullyrt að þetta er ein af fáum uppsprettum raunverulegs haturs í stjórnmálunum hér. Annars er hatrið frekar sjaldgæft.

Geir Haarde verður æ landsföðurlegri og virðist vera hafinn yfir svona kenndir. Vinsældir hans felast ekki síst í því að hann virðist sanngjarn og hófstilltur. Svona sjónarmið eru auðvitað þröng og flokksleg og koma kjósendum sáralítið við. Líklega metur Geir það svo að stjórn með Samfylkingunni sé traustasti möguleikinn sem hann á völ á. Sæmilegur friður virðist vera kominn á með Sólrúnu og Össuri – flestir í þingflokki Samfylkingarinnar eru nokkuð sjóaðir pólitíkusar sem eru ekki líklegir til að hlaupa út undan sér. Metnaður þeirra stendur líka eindregið til þess að fá að starfa í ríkisstjórn, sitja ekki á hliðarlínunni í fjögur ár í viðbót.

— — —

Morgunblaðið hefur mikið talað fyrir stjórn með Vinstri grænum. Líklega hefur það aldrei verið raunhæfur möguleiki í augum Geirs. Ekki þá nema sem neyðarúrræði. Bilið milli þessara flokka er of mikið. Möguleikarnir á ágreiningi of margir. Grasrótin í VG of óróleg. Það er hins vegar ljóst að Steingrím og Ögmund langar mikið í svona samstarf – svo mikið að Steingrímur var tilbúinn að breyta um kúrs í stóriðjumálum í frægu viðtali á Stöð 2 í gær.

Það gæti orðið skrítið hlutskipti fyrir Vinstri græn að sitja í stjórnarandstöðu með Framsóknarflokknum – gegn ríkisstjórn sem hefur 43 þingmenn. Milli þessara flokka ríkir mikil andúð – það verður lengi að breytast. Framkoma Steingríms við Framsókn dagana eftir kosningar var líka óskiljanleg – að loka með þessum hætti á myndun vinstri stjórnar. Ofmat hann stöðu sína? Trúði hann því sem Mogginn sagði?

Hins vegar á maður aldrei að segja aldrei. Það er ekki ennþá búið að mynda stjórn. Enn er möguleiki á að Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn geti truflað viðræðurnar með því til dæmis að segjast vilja mynda stjórn með Ingibjörgu Sólrúnu sem forsætisráðherra. En þá þyrftu Steingrímur og Jón Sigurðsson að tala saman fyrst – og Jón væntanlega að biðja Steingrím afsökunar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“