fbpx
Þriðjudagur 23.júlí 2024
Eyjan

Of hægrisinnaðar til að hægt sé að hlusta á þær?

Egill Helgason
Þriðjudaginn 25. september 2007 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

mao_unknown_story.jpginfidel.jpg

Þetta finnst mér ekki uppbyggileg lesning hjá Viðari kunningja mínum. Hann veitist með nokkuð heiftúðugum hætti að bókmenntahátíðinni. Aðallega álítur hann hana of hægrisinnaða. Og hún er líka of markaðssinnuð.

Ayaan Hirsi Ali dirfist að segja beint út að vestræn menning sé betri en önnur menning. Það vekur hrylling hjá vinstrimönnum sem næra með sér órökrétt hatur á vestrinu – sem í aðra röndina er sjálfshatur. Er það vegna þess að vestræn menning byggir á lýðræði, ritfrelsi, tjáningarfrelsi, skoðanafrelsi, kynfrelsi og aðskilnaði stjórnmála og trúarbragða?

Vestræn menning er hin eina sem hefur þetta beinlínis á stefnuskrá sinni. Það gerðist ekki áreynslulaust. Þetta er ekki vegna þess að við séum svo sérstaklega góð á Vesturlöndum, betri eða æðri en annað fólk. Orsakanna er að leita í sögu vestursins – blóði drifinni og sumpart ógeðslegri – heimspeki og bókmenntum.

Það að Hirsi Ali kenni manni að fyrirlíta svarta menn er fráleitt. Þessi kona er virðuleg, einstaklega greindarleg, gæsilegur fulltrúi kynstofns síns (ef svo má taka til orða). Hún vekur þvert á móti áhuga og athygli á málefnum Afríku. Málflutningur hennar ristir dýpra en einfeldningslegar klisjur um að enn sé nýlendustefnunni að kenna um allt sem miður fer í Afríku.

Hirsi Ali kemur frá samfélagi þar sem fólk lætur sig dreyma um réttindi og lífskjör eins og við njótum hér á Vesturlöndum. Hún var umskorin sem ung kona og það átti að gefa hana karli sem hún vildi ekki giftast. Hún bjó um tíma í Saudi-Arabíu þar sem kúgun kvenna er algjör. Aðspurð kveðst hún vera femínisti.

Það er stefna sem á ekki upp á pallborðið í Sómalíu eða Saudi-Arabíu.

Svo er reyndar líka að skilja á Viðari að Hirsi Ali eigi ekki að koma á svona hátíð vegna þess að hún hefur rangar skoðanir á Írak og Palestínu. Hvort erum við að tala um hátíð sem snýst um áhugaverðar bækur og höfunda eða hópefli hjá Palestínufélaginu?

— — —

Það sem Viðar hefur að segja um Maó Tse Tung er nánast eins og almennt raus gegn sagnfræðirannsóknum – „hvers erum við nær?“ spyr hann. Viðhorfið er eiginlega að það sé ástæðulaust að skrifa sögu – blandið þeirri póstmódernísku hugmynd að niðurstöður slíkrar söguritunar séu oftast í annarlegum tilgangi. Sneiðin um að Mál og menning eigi ekki að gefa út svona bækur er skrítin í ljósi þess að það var einmitt Mál og menning sem gaf út lofgjörðarrit um kommúnismann hér í eina tíð.

Nú eru það sumsé þeir sem græða sem mest á verslun við Kína sem sjá hag sinn í að djöflast í minningu Maós. Markmiðið er þá að beina sjónum fólks frá gölllum núverandi stjórnarfars. Þetta er skrítin kenning. Uppgjörið við Maó er ekki lengra komið í Kína en að bækur Jung Chang fást ekki útgefnar þar, hvorki ævisaga Maós né Villtir svanir sem byggir á ævi hennar sjálfrar. Valdhafarnir í Kína skýla sér á bak við nafn Maós, nota það þegar þeim hentar, gagnrýni á hann er bönnuð.

En Viðar virðist semsagt álíta að fólk sé svo heimskt – eða illa innrætt – að það geti ekki hvort tveggja lesið sér til um glæpaverk Maós og haft skoðanir á hinum einkennilega herbúðakapítalisma sem nú er við völd í Kína, með tilheyrandi þjóðflutningum, þrælkun og hörmungum. En um leið gríðarlegri auðsöfnun sem mun kannski gera Kína að mesta stórveldi í heimi – eins hrollvekjandi tilhugsun og það er.

Má kannski benda á í því sambandi að Jung Chang er einn harðasti gagnrýnandi núverandi stjórnarfars í Kína – jafnvel þótt hún hafi eytt mörgum árum í að skrifa um ævi Maós?

Harðstjórar eins og Maó, Stalín, Hitler, Napóleon, Djengis Kahn eru leyndardómar. Ráðgátur – αἴνιγμα. Þeir eru hryllilegir og heillandi í senn. Þeir verða ekki skýrðir með því að þeir séu einfaldlega partur af sögulegu eða félagslegu ferli. Þess vegna mun alltaf vera áhugi á ævi þeirra – burtséð frá öllum pólitískum rétttrúnaði. Ástarmál Napóleons, samband Stalíns við börnin sín, rjómakökuát Hitlers, tannburstun og kvennafar Maós – þetta mun alltaf vekja áhuga.

— — —

Bæði Hirsi Ali og Jung Chang töluðu um hluti og hörmungar sem þær hafa reynt á eigin skinni. Sú fyrrnefnda talaði út frá reynslu múslimakonu frá Afríku, hin síðarnefnda ólst upp undir ógnarstjórn Maós og var sjálf Rauður varðliði. Bækurnar sem þær skrifa fást ekki gefnar út í heimalöndum þeirra. Þess vegna fannst mér merkilegra að hlusta á þær en J.M. Coetzee sem talaði með mjög almennum hætti um algeng umkvörtunarefni menntamanna á Vesturlöndum en nýtur þess um leið að bækur hans eru hvarvetna gefnar út, honum eru veitt æðstu verðlaun og klappað er fyrir honum á hátíðum. Hann talar um ritskoðun en verður ekki beinlínis fyrir henni sjálfur.

Ayaan Hirsi Ali og Jung Chang eru stjörnur. Bækur þeirra hafa náð margfaldri metsölu. Þær eru heimsfrægar. Bækurnar eru líka að koma út í íslenskum þýðingum. Nærvera höfunda af þessu lyftir svona hátíðum – vekur áhuga meðal þeirra sem annars eru ekki mikið fyrir bækur eða bóklestur. Þetta hefur skírskotun út fyrir menningarkimann.

Nú veit ég að Viðar og félagar í Nýhil eru að fara að halda ljóðahátíð. Það er besta mál. Hún verður ábyggilega áhugaverð. En ég er samt viss um að við munum flest ekki þekkja einn einasta höfund á hátíðinni. Við skulum bara vona að þeir verði ekki of hægrisinnaðir, markaðsvænir eða að þeir hafi vitlausar skoðanir á Palestínumálinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Ráðamenn sem hossa sjálfum sér

Björn Jón skrifar: Ráðamenn sem hossa sjálfum sér
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sakar Reykjavíkurborg um að draga lappirnar varðandi viðbrögð við rafhjólaslysum

Sakar Reykjavíkurborg um að draga lappirnar varðandi viðbrögð við rafhjólaslysum