fbpx
Þriðjudagur 23.júlí 2024
Eyjan

Íslensk samtímaheimild um ógnarstjórn Maós

Egill Helgason
Föstudaginn 21. september 2007 13:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

cult-revol.jpg

Á einum stað á vefnum sá ég borið lof á fræg orð Maós formanns um að þúsund blómum skyldi leyft að spretta. Þetta var tími í sögu hins kommúníska Kína þegar fólk átti að geta tjáð skoðanir sínar – það var jafnvel hvatt til þess. Sannleikurinn var hins vegar sá að þetta var gildra – partur af valdabaráttu, enn ein leið til að kúga þjóðina.

Á Vesturlöndum fögnuðu ýmsir vinstri menn þessu framtaki Maós. Og gera semsagt enn. Kannski gerðu þeir sér ekki grein fyrir því – eða vildu ekki skilja – að í lýðræðisríkjum vestursins fengu þúsund blóm að spretta án þess að neinum þætti það sérstakt tiltökumál.

Svo vill til að finna má merkilega íslenska samtímaheimildi um ógnarstjórn kínverskra kommúnista á þessum tíma. Þetta eru bréf sem Skúli Magnússon skrifaði frá Peking 1959 og 1960. Skúli var þá námsmaður í Peking. Bréfin ollu mikilli geðshræringu meðal ungra íslenskra kommúnista sem voru við nám í austantjaldsríkjum og störfuðu í félagsskap sem nefndist SÍA. Heimdallur komst seinna yfir bréfasafn SÍA og birti í frægri bók sem sýnir vaxandi efasemdir lærissveina Einars Olgeirssonar um fyrirmyndarríkin í austri. Hins vegar var farið með þessar efasemdir eins og mannsmorð – það mátti ekki láta alþýðuna vita að skugga bæri á útópíuna.

Skúli Magnússon gekk af trúnni á kommúnismann eftir dvölina í Kína. Hann starfaði síðar sem jógakennari í Reykjavík. En hér er semsagt brot úr bréfum Skúla:

„Þegar ég hafði dvalizt nokkra mánuði í landi þessu upphófst mikill annatími. Hann var ekki falinn í þeim störfum, sem ég þekkti vestan af fjörðum: hrognkelsa- og silungsveiði, smölunum og réttum vor og haust, heyskap á sumrum né tóvinnu á vetrum. Hann var falinn í sjálfsmorðum. Sumir átu nagla, títuprjóna og glerbrot, aðrir stukku niður af þriðju og fjórðu hæð, enn aðrir köstuðu sér í vötn þau, sem hér eru í campusnum. Einn prófessor var t.d. dreginn upp úr vatninu og barinn af stúdentum sínum með þeirri yfirlýsingu, að hann hefði gjörla vitað, að vatnið væri of grunnt til að drekkja sér þar í og hann væri bara í þykjustuleik; og var téður prófessor hið snarasta sendur á geðveikrahæli (vinnubúðir). Einn stúdent kastaði sér niður af þriðju hæð og braut á sér báða fætur. „Framvarðalið verkalýðsins: Flokkurinn“ (með stórum staf eins og Guð) rak niður tvo þölla á staðnum og negldi þar kassafjöl á með slíkri áletran: „Hvaða óhreina plan gegn fólkinu hafði téður stúdent í huga þegar hann kastaði sér hér niður?“

Hér voru á ferðinni þeir menn sem orðið höfðu við áskorun Maós í ræðu hans 27. febrúar 1957 um blómin og skólana, svo sem frægt er orðið, að segja hug sinn allan. Ég get sagt þér, að svo mikið er traust alþýðu manna til „framvarðaliðs síns“, að menn héldu sem fastast kjafti í að minnsta kosti tvær vikur (held ég, ég er ekki alveg viss um tímann, enda skiptir hann ekki miklu máli) eða lengur, meðan flokkurinn lagði sem fastast að þeim að tala. Loks sprakk stíflan, en aðeins í tíu daga, þá var troðið upp í skarðið. Allir þeir, sem ég veit um, töluðu meira og minna ófúsir vegna hvatningarorða og loforða, og svo mun hafa verið um flesta. Flestir komu aðeins með blákaldar staðreyndir, nokkrir þó með „kennisetningar“. Það komust þeir lengst á villunnar braut að boða borgaralegt þingræði og tveggja flokka kerfi. Á þessum mönnum var síðan barið á þann hátt, að æstur var upp skríll, þeir settir í miðjuna í hring, sem skríllinn myndaði, (aðeins einn í hvert skipti að sjálfsögðu) og látnir hneigja höfuð, síðan öskrar skríllinn skammir og svívirðingar að þeim; og við útlendingar hér heyrðum óhljóðin þegar við fórum í hressingargöngu á síðkvöldum. Þeir, sem hættulegri þóttu, fengu enga hvíld, hvorki á degi né nóttu. Það var gert á þann hátt, að sendur var hópur manna til að atyrða þá, þegar sá hópur hafði dvalið um stund var annar sendur og svo koll af kolli, dag og nótt, sólarhringum saman. Ein stúlka, örvinluð af ölllu saman, svipti sig öllum klæðum, svo að karlmennirnir kynnu ekki við að dvelja lengur, þa voru stúlkurnar bara sendar í staðinn. Síðar frétti ég að stúlkuauminginn hefði sturlazt.

[…..]

Hverju mannsbarni hlýtur að vera ljóst, að allir eru alltaf að njósna um alla. Margir stúdentar eiga engan trúnaðarvin meðal skólafélagaga sinna: þeir lifa ekki normölu andlegu lífi. Börnin fara hér á skrifstofur „framvarðasveita verkalýðsins“ og gefa reglulegar skýrslur um foreldra sína. Kona og maður og börn þeirra njósna hvort um annað; eðlilegt mannlegt samband milli fólks er rofið, en í stað þess liggja allir þræðir um lófa „Flokksins“.

Ég fæ ekki betur séð en, að Kommúnistaflokkur Kína sé með verstu úrhrökum, sem veraldarsagan greinir. Eignist kínverskur stúdent okkur að vinum og ef upp kemst, eru þeir oftast nær skammaðir og bannað að hafa við okkur samneyti. Fellum við ást á stúlkum, hverfa þær sporlaust.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Ráðamenn sem hossa sjálfum sér

Björn Jón skrifar: Ráðamenn sem hossa sjálfum sér
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sakar Reykjavíkurborg um að draga lappirnar varðandi viðbrögð við rafhjólaslysum

Sakar Reykjavíkurborg um að draga lappirnar varðandi viðbrögð við rafhjólaslysum