Svona er fyrsti Kompásþáttur vetrarins kynntur:
„Í þessum fyrsta þætti beinum við sjónum okkar að málum manns sem er ákærður fyrir alvarleg kynferðisbrot gagnvart unglingsstúlku.“
Á öðrum stað stóð að þátturinn fjallaði um „hátt settan mann“.
Vandinn við Kompás sem fréttaþátt er að áherslan er nær eingöngu á það sem kallast sensasjónalismi. Barnaníðingar og kynferðisbrotamenn eru eftirlæti Kompáss. Matreiðsla efnisins er öll á eina leið – það er smjattað og kjamsað á því. Tálbeitur eru notaðar til að afla frétta. Viðmælendur koma fram undir nafnleynd með alvarlegar ásakanir á hendur nafngreindu fólki. Það er setið fyrir fólki með myndavélum, það er elt gegn vilja sínum og myndirnar sýndar í þættinum í neyðarlegu samhengi.
Líklega er álitið að þátturinn fái meira áhorf fyrir vikið. Þetta er kallað „fréttaskýringaþáttur“, en í raun fjallar þátturinn um afskaplega þröngt sjónarhorn á tilveruna. Helst ekkert nema sé álitið að það „selji“ og valdi hneykslun. Áhuginn á þjóðmálunum ristir ekki dýpra en svo. Datt þeim aldrei í hug að byrja veturinn á umfjöllun um til að mynda gjaldmiðilsmálin, deilurnar um skipulag í Reykjavík eða hræringarnar á orkumarkaði?
Það er reynt að klæða Kompás í einhvern þjóðþrifamálabúning, tekið fram að leitað hafi verið álits hjá dómsmálaráðherra, sagt að hann hafi neitað viðtali eins og hann hafi eitthvað að fela, en svo látið í veðri vaka að það sé útbreitt í samfélaginu að hátt settir menn beiti kynferðisofbeldi í skjóli embætta sinna. Það sem verra er – fullyrt er að þeir komist upp með slíkt athæfi. Fyrir þessu eru ekki nefndar neinar sannanir – bara talað um að umræða verði fara fram. Helst í Kompási.
Æi, auðvitað er þetta ekki annað en DV í sjónvarpi – þá meina ég DV eins og það var á mesta niðurlægingarskeiðinu. Þar var líka á ferðinni sama skinhelgin mitt í sensasjónalismanum. Sú hugmynd að með svona fréttamennsku sé verið að vinna samfélaginu ógurlegt gagn.
Í þættinum í kvöld var fjallað um mál lögmanns sem er sakaður um kynferðisbrot. Þar kom fram að dómur í málinu myndi falla 27. september.
Hví mátti ekki bíða þangað til? Það er bara spurning um eina viku. Hví lá svona mikið á? Þarf virkilega að taka fram enn einu sinni að í réttarfari okkar eru menn saklausir uns sekt þeirra er sönnuð.