Davíð Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, hefur löngum verið valdamesti maðurinn í heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga. Ráðherrar hafa ekki átt neitt í þennan embættismann.
En nú hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, nýr heilbrigðisráðherra, tekið sig til og skutlað Davíð út úr ráðuneytinu. Hann er kominn í sérverkefni fyrir utanríkisráðuneytið. Margir anda léttar í heilbrigðiskerfinu.
Í framhaldi af því er kannski kominn tími á stefnubreytingu. Það mætti til dæmis gera róttækar breytingar á fyrirhuguðum Alfreðsspítala við Hringbrautina, en eftir því sem næst verður komist er ákvörðunin um hann runnin undan rifjum Davíðs.
Stjórnsýslufræðingur – sem einnig er farin að vinna fyrir Ingibjörgu Sólrúnu – komst annars að þeirri niðurstöðu í lærðri rannsókn að ákvörðunin um að byggja spítalann hefði tekið sig sjálf.