Miklar vangaveltur eru um sinnaskipti Sjálfstæðisflokksins í krónumálum. Talið er víst að þau séu yfirvofandi.
Meðal þeirra sem eru að gefast upp á krónunni eru Samtök atvinnulífsins, Landsamband útvegsmanna, Samtök iðnaðarins, verkalýðshreyfingin, bændasamtökin, bankarnir og almenningur sem tekur lán í stórum stíl í svissneskum frönkum, jenum og evrum.
Og eru þá ekki allir upptaldir.
Viðhorfsbreytingin í Sjálfstæðisflokknum þarf að verða án þess að styggja um of manninn í svörtuloftum sem lýsti því eitt sinn yfir að evran væri sambærileg við gjaldmiðil Norður-Kóreu. Hann hefur líka atvinnu af því að Íslendingar haldi í krónuna.
Því er talið að Björn Bjarnason og Illugi Gunnarsson verði fremstir í flokki þegar hin nýja flokkslína verður kynnt. Þeir eru úr réttum armi flokksins til að taka að sér þetta verkefni.
Línan mun fela í sér að Íslendingar taki upp evruna – án þess þó að ganga í Evrópusambandið. Það verður áfangastaður flokksins í bili.
Þetta eru svipaðar hugmyndir og Valgerður Sverrisdóttir setti fram meðan hún var viðskiptaráðherra.
Þá gerðu margir sjálfstæðismenn grín að henni. En nú má segja að þeir séu farnir að aðhyllast valgerðarismann…