Það var umdeilt þegar Reykjavíkurapóteki, einu fegursta og virðulegasta steinhúsi í Reykjavík, var breytt í veitingastað. Það var dapurt að sjá innréttingarnar í apótekinu rifnar út.
Sjálfur Guðjón Samúelsson teiknaði húsið sem var reist eftir Reykjavíkurbrunann mikla 1915. Það var upprunalega kennt við Natan & Olsen, en hýsti Reykjavíkurapótek eftir 1930. Þetta er eitt fyrsta húsið sem Guðjón teiknaði – má heita klassík í íslenskri byggingarlist.
Það er sorglegt að ekki voru byggð fleiri hús í þessum stíl í borginni.
Veitingahúsið Apótekið má eiga að það er fallega hannað og yfir því er nokkur reisn. Það passar ágætlega inn í húsið. Tryggir líka líf á þessu fornfræga götuhorni.
En nú á að breyta húsinu í dansstað og næturklúbb. Hann verður væntanlega ekki opinn nema að næturlagi um helgar. Lífið færist úr húsinu að deginum. Fyrir utan að því er sýnd algjör svívirða með slíkri starfsemi.