Að sumu leyti hlýtur maður að fagna áhuga peningamanna á miðborginni. Það sýnir að þeir trúa að eitthvað líf sé í þessu og verði áfram í framtíðinni. Maður hlýtur samt að velta fyrir sér hvað vaki fyrir auðmönnum sem eru að kaupa upp mörg hús í borginni og jafnvel heilu götulengjurnar? Skáka í skjóli fasteignasala sem beita fólk miklum þrýstingi til að selja.
Er planið að rífa húsin, byggja stórhýsi í staðinn og græða á því obboslega mikinn pening? Að hve miklu leyti stuðlar þetta að háu húsnæðisverði? Eða er gert af eintómri ást og umhyggju í garð borgarinnar? Á að gera upp gömlu húsin og selja eða leigja á eðlilegu verði?
Það hefur frést af miklum húsakaupum í kringum Hverfisgötuna. Vissulega má taka verulega til hendinni á því svæði – það er ógeðslegt. En það er ekki sama hvernig það er gert. Sprorin frá Lindargötunni hræða. Þar hafa verið unnin einhver hörmulegustu skemmdarverk sem maður hefur séð í borgarlandinu.
En kannski er þetta bara liður í því að bankarnir eignist allt í landinu. Þeir eiga hvort sem er húsnæðið sem við flest búum í, allavega þau okkar sem hafa tekið lán til margra áratuga á þeim vöxtum sem nú bjóðast.
Þar er eiginlega ekki hægt að tala um eign – frekar langtímaleigu.