Dálkahöfundurinn Jeffrey Bernard gerði Norman, dónalegasta kráareiganda Lundúna, ódauðlegan í pistlum sínum í Spectator. Um þá félagana var líka fjallað í leikritinu Jeffrey Bernard is Unwell þar sem Peter O’Toole lék aðalhlutverkið.
Norman starfaði á kránni Coach & Horses í Soho. Hann gaf reyndar sjálfur út endurminningar sínar undir nafninu You´re Barred, You Bastards. Þegar Norman var hylltur er hann lét af störfum fyrir nokkrum árum tímdi hann ekki einu sinni að bjóða fastagestum sínum upp á bjór.
Nú virðist vera komin upp keppni um hver sé dónalegasti hótelhaldari í Reykjavík.
Eigandi gistiheimilisins Adams við Skólavörðustíg kemur sterkur inn. Hann lét gesti sína ekki vita að búið væri að aflýsa skoðunarferð sem þeir ætluðu í. Hann horfði reyndar á þá út um gluggann þar sem þeir biðu, en aðhafðist ekki vegna þess að hann var ekki í vinnunni.
Eigandi Atlantis hótels við Grensásveg kemur líka til álita. Hann er grófur í tali, reynir að snuða fólk og ásakar það um að hafa valdið skemmdum sem það kannast ekkert við. Sérstaklega þurfa Bandaríkjamenn að gæta sín á honum.
Svo er það frásögnin af lífinu á Top CityLine Grand Hotel Reykjavik sem er eins og úr góðri grínmynd. Þar var gestum seld gisting í herbergjum sem ekki voru tilbúin fremur en hótelið sjálft eða starfsfólkið – minnir á kvikmyndina Playtime eftir Tati og reyndar líka snilldarverkið Carry On Abroad.
Það er sígild fyndni þegar fólk kemur á hótel og það er maður að bora í næsta herbergi eða flísar sem detta úr loftinu og hjá starfsfólkinu er allt í pati.
En þegar maður rennir yfir listann á Tripadvisor finnst manni eins og hótelin í höfuðborg Íslands séu ekkert sérstök, kannski bara dýr og léleg.
Hvar er lúxusinn?