Mér er það sérlega minnisstætt þegar ég sá Sjöunda innsiglið í – af öllum stöðum – Sjónleikarahúsinu í Færeyjum og fylltist angist yfir dauðanum, bæði vegna Bergman myndarinnar sem fjallar um riddara sem teflir skák við dauðann og þunglyndislegs andrúmsloftsins á eyjunum.
Þessi allegóría um dauðann eldist vel – með ótrúlega fallegum ungum Max von Sydow – núna í sumar var verið að sýna hana í nokkrum kvikmyndahúsum í London. Í litlu bíói í París hefur verið Bergman hátíð í marga áratugi.
Bergman myndirnar voru annars sýndar í Fjalakettinum hjá Friðriki Þór á árunum 1976-77. Þar sá maður meistaraverkin: Þögnina, Persona, Meyjarlindina, Bros sumarnæturinnar, Villt jarðarber. Ég var á réttum aldri til að meðtaka þetta.
Það er sagt að Bermann sé þungur og erfiður. Það er ekki alveg satt, tvær síðastnefndu myndirnar sem eru í hópi þeirra dáðustu sem hann gerði eru bara nokkuð léttar og bjartsýnar. Sú fyrri fjallar um framhjáhald og ástir á herrasetri – Woody Allen endurgerði hana í A Midsummer´s Night Sex Comedy – hin síðari um aldraðan prófessor – leikinn af meistaranum Viktor Sjöström – sem fer yfir ævi sína í ökuferð frá Stokkhólmi til Lundar.
Sú mynd er einkennist af frekar umburðarlyndum og gamansömum mannskilningi – ólíkt sumum Bergman myndum þar sem hann beitir persónur sínar smásmyglislegri dómhörku.
Sumt varð reyndar dálítið þrúgandi. Myndir úr hjónabandi, ég gat ekki horft á það. Hvísl og hróp með konum að deyja hægt og í mjög þungu skapi. Þessi nakta sjálfsskoðun – blandin lúterskri sjálfspyntingu. Þetta ágerðist þegar Bergman varð eldri – þess vegna létti manni þegar maður sá fyrri hlutann af Fanný og Alexander þar sem dulúð og katína bernskunnar var í fyrrirrúmi.
En það er mikill meistari sem er genginn. Flókinn maður, sjálfsagt erfiður, en einn af raunverulegum snillingum kvikmyndanna – síðasti fulltrúi hins klassíska tíma kvikmyndalistarinnar á áratugunum eftir stríð.