Kaupþing hækkar vexti á húsnæðislánum. Þeir verða 5,95 prósent – sem er rosalega mikið fyrir fólkið sem þarf að borga af slíku láni. En bankann munar kannski ekki mikið um það.
Röksemdafærslan er svohljóðandi:
“Vaxtabreyting þessi er tilkomin vegna þess mikla munar sem myndast hefur á óverðtryggðum og verðtryggðum vöxtum í kjölfar lækkandi verðbólgu og áframhaldandi hárra óverðtryggðra vaxta.”
Nú er ég bara venjulegur maður með litla þekkingu á hagfræði – og enn minni þekkingu á almannatengslum.
En hefði ekki verið nær fyrir bankann að hugsa sem svo:
Í gær skiluðum við enn einu metuppgjörinu. Við græðum á tá og fingri. Við erum eiginlega heimsmeistarar í bankarekstri.
Af hverju ættum við þá að hækka verðið á vörunni sem við seljum?